136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

mál á dagskrá -- tónlistar- og ráðstefnuhús.

[15:02]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að bera það undir forseta að hann breyti aðeins áherslum á því hvernig dagskránni í dag er raðað upp. Mjög merk mál eru sett aftarlega á dagskrá á eftir frumvarpi um breytingu á stjórnarskipunarlögum. Ég tel að eins og sakir standa í þjóðfélaginu sé mikil ástæða til að ljúka þeim málum sem snúa að atvinnulífi og heimilum og vek athygli á því að seint á dagskránni er mál sem snýr að heimild til samninga um álverið í Helguvík. Þar er einnig mál sem fjallar um frestun innheimtu eftirlitsgjalda og um hlutaatvinnuleysisbætur þannig að mörg mál snúa að heimilum, atvinnulífi og efnahagsmálum, sem er mjög nauðsynlegt að ræða. Ég legg til við hæstv. forseta að af þeim sökum fresti hann 3. málinu sem fjallar um stjórnarskipunarlög og við getum þá rætt það í samfelldum tíma á morgun. (Forseti hringir.)