136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

mál á dagskrá – tónlistar- og ráðstefnuhús.

[15:23]
Horfa

Jón Magnússon (S):

(MÁ: Númer tíu.) Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir það að halda góða tölu á því hvernig menn koma upp í ræðustól. Það er hins vegar ekkert aðalatriði. Aðalatriði málsins er að við ræðum um það með hvaða hætti störfum Alþingis á að vera háttað. Hv. þm. Mörður Árnason ætti að gera sér grein fyrir að það skiptir gríðarlegu máli vegna þess að spurningin er hvernig menn forgangsraða. Það er eitt höfuðatriðið í stjórnmálum hvernig menn forgangsraða. Ljóst er að þessi ríkisstjórn forgangsraðar hvorki fyrir fólk né fyrirtæki í landinu hvað svo sem líður því sem hæstv. iðnaðarráðherra segir um eitthvert sýndarplagg um 4.000 störf. Það er ágætt að taka viljann fyrir verkið en við skulum bíða eftir verkinu, hæstv. iðnaðarráðherra.