136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

atvinnumál.

[15:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ríkisstjórnin kynnti í síðustu viku fjögur þúsund ný störf til sögunnar og ég fagna því að þær tillögur koma fram. Sumt af þessu eru gamlir kunningjar, annað er nýmæli. Þegar maður fer yfir þær er margt athyglisvert að sjá og margt er að sjálfsögðu hægt að taka undir eins og t.d. störf er tengjast nýsköpun. Ég vil sérstaklega taka fram að ég tel mjög fýsilegt að við könnum skattumhverfið sem tengist framlögum í sprotafyrirtæki og þau fyrirtæki sem eru starfandi og stuðla að eflingu rannsókna og þróunar. Við eigum að leita allra leiða til þess að skoða hvort það fjölgi ekki einmitt störfum. Við vitum það bæði tvö, ég og hæstv. iðnaðarráðherra, að við höfum fyrirtæki, hvort sem það eru Össur, Marel eða CCP, þar sem getum við fjölgað störfum ef skattumhverfinu er breytt.

Ég efast um að sumar tillögur, eins og þær sem tengjast fiskvinnslunni, séu raunhæfar, en þær kalla alla vega á lagabreytingar eins og þau þúsund störf sem eiga að fást í gegnum nýsköpunarverkefnin.

Það sem ég hjó eftir þegar ég las fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar var að sá ég ekki betur en að tillögurnar kalli á a.m.k. fjögur til fimm lagafrumvörp. Því spyr ég, ekki síst í ljósi umræðunnar sem var hér áðan með tilliti til dagskrár þingsins, sem er þröng — við höfum ekki mjög mikinn tíma í þinginu, hugsanlega fram eftir marsmánuði: Hvar eru þau frumvörp? Ef hugur fylgir máli, af hverju lagði ríkisstjórnin þá ekki fram þau fimm frumvörp sem eru til þess fallin að stuðla að fjölgun starfa?

Það mun ekki standa á okkur sjálfstæðismönnum þegar við fáum þau frumvörp til umræðu í þinginu. En hvar eru frumvörpin til að fylgja eftir þessum fjögur þúsund störfum, t.d. eins og varðandi nýsköpun og þróun? Við þurfum að breyta þar skattumhverfinu. Hvar er frumvarpið um rannsóknir (Forseti hringir.) og þróun í tengslum við rekstur fyrirtækja?