136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skerðing bóta almannatrygginga vegna lífeyrisgreiðslna.

[15:41]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir þessa spurningu sem er alveg tímabær. Eins og sakir standa er að störfum nefnd undir forustu Stefáns Ólafssonar sem er að vinna að þeim málum sem snúa að skerðingum í almannatryggingakerfinu, að einfalda kerfið og gera það gagnsærra. Þeir munu einmitt taka á þessum þætti.

Ég er mjög sammála hv. þingmanni að það þarf að samræma þessi ákvæði og setja frítekjumörk. Það er ekki eðlilegt að einar tekjur skerði og aðrar ekki. Þessi nefnd er einmitt að vinna að því máli og ég á von á því að fá tillögur nú í þessum mánuði frá nefndinni — ég vonast til þess að fá þær núna áður en þessi mánuður er á enda — sem ég mun skoða og síðan tala við hagsmunaaðila lífeyrisþega, bæði öryrkja og eldri borgara, þar sem málin verða skoðuð. Ég tel þetta vera mjög brýnt mál og mun leggja áherslu á það meðan ég er í félagsmálaráðuneytinu að þessi vinna gangi hratt og vel fyrir sig.