136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

álver á Bakka.

[15:45]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Á dagskrá Alþingis seinna í dag er heimild til samninga við álverið í Helguvík, afar brýnt og gott mál. Það er jákvætt að mínu mati að stjórnvöld ætli að koma og veita því verkefni liðsinni, enda um rúmlega 1.500 manns atvinnulausir á Suðurnesjum öllum. Það eru líka margir atvinnulausir annars staðar á landinu, á Norðurlandi eystra voru 27. febrúar sl. 1.583 menn á atvinnuleysisskrá. Heimamenn í Þingeyjarsýslum hafa verið samstiga og áfram um að reisa álver á Bakka við Húsavík. Það hefur ríkt mikil sátt og samlyndi um þessa uppbyggingu og má segja að Akureyringar og Eyfirðingar styðji heimamenn í að nýta þá orku sem þar er að finna. En nú gerðist það rétt fyrir áramót, eða réttara sagt fyrr í sumar, að stjórnvöld lögðu stein í götu þess verkefnis þegar fyrrverandi umhverfisráðherra úrskurðaði að tiltekið verkefni ætti að fara í sameiginlegt umhverfismat.

Við bentum á að það mundi tefja verkefnið og það mundi líka líklega brjóta lög og þá sérstaklega stjórnsýslulög. Umboðsmaður Alþingis staðfesti þennan grun okkar sem bentum á þetta og hefur úrskurðað að þessi úrskurður fyrrverandi umhverfisráðherra sé í rauninni kolólöglegur.

Í ljósi alls þessa spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra hvort hann vilji beita sér sérstaklega varðandi framkvæmdir við álverið á Bakka, eins og hann hefur gert varðandi Helguvík.