136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

álver á Bakka.

[15:47]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þau jákvæðu orð sem hann hefur látið hér falla um ýmis verk mín á Alþingi. Það er greinilegt að í sumum flokkum njóta þau fylgis, kannski ekki öllum. Það er alveg hárrétt hjá honum að þær framkvæmdir sem hugsanlega fara af stað í krafti þess fjárfestingarsamnings sem verður ræddur hér síðar í dag um Helguvík skipta mjög miklu máli. Ég hef einu sinni sagt þinginu hversu miklu, sagði 7.000 störf. Það hefur verið endurreiknað af öðrum sérfræðingum og það eru á milli 8.000 og 9.000 störf. Það segi ég til að undirstrika hvað það skiptir miklu máli inn í andrúmsloft atvinnuleysis sem hér ríkir.

Hv. þingmaður spyr mig síðan um álver á Bakka og hvort ég vilji beita mér fyrir því með sama hætti. Nú er staðan þannig, eins og hv. þingmaður veit, að ég hef beitt mér fyrir því, ég hef beitt mér fyrir framgangi þess máls í t.d. mínum þingflokki og sannarlega hefur framganga mín í því ekki orðið til þess að hækka mig á vinsældalista … (Gripið fram í.) Til dæmis, hv. þingmaður. Málið er hins vegar í farvegi núna. Sá farvegur er framhaldið sem ég undirritaði og framlengingin á samstarfsyfirlýsingu milli ríkis, Alcoa og Norðurþings. Þar er staðan þannig að ríkið og sveitarfélagið eru búin að standa við sína hluta en hins vegar hefur Alcoa frest fram á haustið á þessu ári til að taka sína ákvörðun. Eftir því er beðið.

Ég get ekki sagt hv. þingmanni stöðuna nákvæmlega varðandi afstöðu Alcoa í þessu máli aðra en þá að forustumenn félagsins hér á Íslandi hafa undirstrikað og staðfest mjög rækilega áhuga sinn á þessu. Hæstv. samgönguráðherra hefur haldið um þetta ræður, m.a. vegna þess að hann hefur beitt sér fyrir því að gerð verði jarðgöng um Vaðlaheiði, m.a. til að auðvelda það að þetta svæði verði einn vinnumarkaður. Eins og hefur komið fram í fréttum er hæstv. samgönguráðherra að beita sér fyrir því að hugsanlega verði ráðist (Forseti hringir.) í þau í gegnum einkaframkvæmd. Það mundi skipta miklu (Forseti hringir.) máli inn í atvinnulífið og efnahagslíf okkar núna.