136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

innheimtuaðgerðir vegna afnotagjalda RÚV.

[15:55]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Ég hélt að það hefði verið þannig að ríkisstjórnin eða ráðuneytin hefðu farið fram á það við einstakar stofnanir eða sent þeim bréf eða einhvers konar tilkynningar um það að fara með gát. Þess vegna var mér satt að segja svolítið brugðið þennan morgun þegar ég ók hingað til þingsins að þetta skyldi vera síðasta auglýsing fyrir fréttir, að Ríkisútvarpið hótaði lögfræðingum og málssóknum á hendur þeim sem ættu ógreidd afnotagjöld, ekki síst í ljósi þess að við erum að fara að gera þessar breytingar. Það kom einkennilega við mig að heyra þetta og ég veit að það á við um fleiri. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til að gera athugun á þessu og enn fremur langar mig að beina því til ríkisstjórnarinnar hvort ekki sé tekið mark á þeim tilmælum sem farið hafa til stofnana.