136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

endurreisn efnahagslífsins.

[16:14]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef mál mitt á því að fjalla um atburði morgunsins. Eins og hv. þingmenn hafa heyrt um greip Fjármálaeftirlitið í morgun inn í rekstur Straums–Burðaráss fjárfestingarbanka og eftirlitið hefur skipað skilanefnd sem tekur við öllum heimildum stjórnar bankans. Það er gert í kjölfar þess að fram hafði komið í samskiptum Straums – Burðaráss við Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann að Straumur hefði ekki handbært fé til að standa skil á skuldbindingum sínum.

Jafnframt lá fyrir að breska fjármálaeftirlitið mundi afturkalla starfsleyfi Straums í Bretlandi, yrði ekki við lausafjárskortinum brugðist fyrir opnun í dag. Þá hafði komið fram að það væri mat stjórnenda Straums að ekki væri raunhæfur kostur að afla þess fjár sem nauðsynlegt væri til að tryggja áframhaldandi starfsemi. Vegna þessarar alvarlegu stöðu taldi Fjármálaeftirlitið nauðsynlegt að grípa til framangreindra aðgerða til að lágmarka skaðann fyrir íslenskt fjármálakerfi.

Eins og ríkisstjórnin hefur lýst yfir eru innstæður í innlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi tryggðar að fullu. Það á við um innstæður í Straumi – Burðarási ekki síður en öðrum fjármálastofnunum. Fall Straums – Burðaráss fjárfestingarbanka er vissulega áfall, ekki síst fyrir starfsfólk bankans, hluthafa og lánardrottna. Mikilvægt er þó að hafa í huga að áhrif þess á íslenskt efnahagslíf er hverfandi borið saman við fall stóru bankanna í október síðastliðnum.

Straumur – Burðarás var, eins og menn þekkja, fjárfestingarbanki en ekki hefðbundinn viðskiptabanki sem þjónaði einstaklingum. Hins vegar er hugur minn vissulega hjá starfsfólki Straums og fjölskyldna þeirra sem sjá nú hugsanlega fram á að missa störf sín.

Hæstv. forseti. Því miður dróst endurreisn bankakerfisins úr hófi í tíð fyrri ríkisstjórnar. Undanfarna daga og vikur hefur nýrri ríkisstjórn tekist að stíga afar mikilvægt skref til þess að endurbyggja fjármálakerfi landsins og koma til móts við verst settu heimilin og fyrirtækin í landinu. En frekari aðgerða má vænta á næstu dögum og vikum.

Endurheimt trúverðugleika Seðlabankans er grundvallarskref í enduruppbyggingu fjármálahagkerfis landsins. Peningastefnunefnd sem skipuð er fimm mjög frambærilegum hagfræðingum mun nú taka allar ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans. Þegar hafa borist jákvæð viðbrögð erlendra fjárfesta vegna breytinga sem gerðar hafa verið á yfirstjórn Seðlabankans og með skipun peningastefnunefndar. Markaðurinn hefur lýst yfir mikilli ánægju með þessar breytingar. Lokaskrefið í þessu mikilvæga endurreisnarferli verður síðan tekið í vor þegar nýr seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri verða skipaðir en störfin voru auglýst um helgina. Í þær stöður verður skipað að afloknum kosningum. Aukinn trúverðugleiki Seðlabankans ætti að auka enn frekar stöðugleika krónunnar og verðlags. Fljótlega ættu því að skapast aðstæður fyrir peningastefnunefndina að stíga fyrstu skrefin í átt til vaxtalækkunar.

Hæstv. forseti. Öflugt bankakerfi er forsenda hagvaxtar í nútímahagkerfi. Við gerum ráð fyrir að bankarnir verði endurfjármagnaðir í lok næsta mánaðar og geti snúið sér að fullum krafti að enduruppbyggingu íslensks efnahagslífs á grundvelli stöðugs gengis og verðlags með hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu að leiðarljósi.

Taka verður sérstaklega á málum þeirra heimila og fyrirtækja sem verst standa. Óvarlegt er hins vegar að grípa til almennra og mjög kostnaðarsamra aðgerða sem ekki beinast sérstaklega að þeim sem verst eru staddir. Þegar hafa verið unnin á vettvangi ríkisstjórnarinnar frumvörp eins og um tímabundna greiðsluaðlögun og flutt hefur verið frumvarp um frestun nauðungarsölu. Þá hefur ríkisstjórnin jafnframt lagt fram frumvarp um heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar. Um 22.000 manns hafa þegar nýtt sér greiðslujöfnun verðtryggðra fasteignaveðlána og þúsundir til viðbótar frystingu myntkörfulána. Allt eru þetta ný úrræði sem stjórnvöld og Alþingi hafa komið á í kjölfar bankahrunsins.

Starfshópur á vegum Seðlabanka Íslands sem metið hefur áhrif fjármálakreppunnar á efnahag heimila og fyrirtækja hér á landi skila mér væntanlega niðurstöðu í þessari viku. Þá mun liggja fyrir í fyrsta sinn hér á landi heildaryfirlit þar sem skuldir og eignir heimilanna í landinu hafa verið kortlagðar með mjög vönduðum hætti. Þær munu leggja grunn að frekari aðgerðum.

Mesti skiptir þó að við komum atvinnulífinu aftur í gang og náum tökum á verðbólgunni og að krónan haldist stöðug. Nú í byrjun mars er atvinnuleysið hér á landi um 8% og rúmlega 16.000 manns er á atvinnuleysisskrá. Ríkisstjórnin kynnti tillögur í atvinnumálum fyrir helgi sem ætti að skapa um 6.000 ársverk. Þar af munu verða til um 2.000 störf í orkufrekum iðnaði, svo að fátt eitt sé nefnt.

Úrlausn þeirra fyrirtækja sem nú eru í vanda skiptir stofnun eignasýslufélags eða eignasölufélags miklu. Þetta er tímabundin ráðstöfun en gert er ráð fyrir að slíkt félag taki að sér fyrirtæki sem eru sérstaklega mikilvæg í þjóðhagslegu tilliti og byggi undir þau traustar stoðir.

Gert er ráð fyrir að samningum ljúki um miðjan maí með greiðslu til gömlu bankanna. Í kjölfar þess verður gengið til endurskipulagningar fjármálakerfisins í ljósi þarfa íslensks atvinnulífs.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson lagði fram fyrirspurn um hvort erlendir kröfuhafar geti eignast hlut í ríkisbönkunum. Svarið við því er að það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að eignarhald erlendra lánardrottna komi fullkomlega til greina. Það var eitt af þeim málum sem síðasta ríkisstjórn samþykkti og hefur í engu breyst.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar gerðist hins vegar afar lítið í málinu en nú höfum við samþykkt stefnumörkun nefndarinnar sem vinnur að endurreisn fjármálakerfisins og m.a. tillögur hennar um að ráða ráðgjafarfyrirtækið Hawkpoint til að semja við umrædda lánardrottna. Eitt af því sem kemur til álita í þeim viðræðum sem Hawkpoint aðstoðar okkur nú við er eignarhald umræddra lánardrottna.

Samningar við lánveitendur vegna Icesave og styrkingar gjaldeyrisforðans hafa nú verið settar í formlegan farveg eftir að hafa verið ómarkvissir og dregist um of. Viðræður vegna Icesave hefjast í Reykjavík síðar í mánuðinum og viðræðum við Norðurlandaþjóðirnar um lánveitingar þeirra var fram haldið hér á landi á föstudaginn. Stefnt er að niðurstöðu í þeim innan skamms. Málin eru nú loks komin í þann farveg að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lýst ánægju með hvernig á þeim hefur verið tekið.

Þrátt fyrir að best sé að losa um gjaldeyrishöftin sem allra fyrst hafa aðstæður enn ekki skapast til þess að slíkt sé mögulegt. Áður en hægt verður að losa um þau og aflétta þeim verður að draga verulega úr þeirri óvissu sem einkennir íslenskt efnahagslíf. Skýrari sýn verður að liggja fyrir um skuldastöðu þjóðarbúsins. Ljúka verður við endurfjármögnun bankanna og samninga við erlenda lánveitendur og setja ríkissjóði skýr markmið til næstu ára. Án haftanna gæti krónan fallið hratt, að minnsta kosti til skemmri tíma með slæmum afleiðingum fyrir skuldsett fyrirtæki og heimili, og án haftanna væri erfiðara að lækka vexti. Mikilvægt er að hafa í huga að gengi krónunnar hefur styrkst verulega frá áramótum eða um 15% og er gengið nú svipað og það var fyrir hrunið í haust. Enn er þó óvissa í efnahagslífinu við þær aðstæður og er ekki ráðlegt að losa um gjaldeyrishöftin.

Umtalsverður afgangur af vöruskiptum í síðasta mánuði hjálpar hins vegar verulega til. Eftir að tilkynnt var um 6 milljarða kr. afgang í febrúar er heildarafgangur síðastliðinna sex mánaða nú yfir 50 milljarðar kr. Búast má við enn meiri afgangi á næstu mánuðum. Sýnir þessi þróun vel sveigjanleika íslensks hagkerfis og getu Íslendinga til þess að bregðast hratt við breyttum aðstæðum. Það er eiginleiki sem mun hjálpa þjóðinni mikið í því uppbyggingarstarfi sem fram undan er.

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur, eins og ég hef hér greint frá, komið mjög mörgu til leiðar á þeim fáu vikum sem hún hefur starfað. Mörg þeirra verkefna munu bera ávöxt strax í vor. Verðbólgan fer lækkandi. Hún var 17,6% í febrúar, prósentustigi lægri en mánuði áður. Búast má við hratt lækkandi verðbólgu næstu mánuði. Krónan hefur styrkst um rúm 15% frá áramótum. Afgangur af vöruskiptum hefur verið verulegur og aðeins hefur hægt á aukningu atvinnuleysis.

Skýr stefna ríkisstjórnarinnar og aðgerðir hennar munu endurreisa traust á íslenska efnahagslífinu. Þar þurfa þó allir að leggjast á eitt líkt og aðilar vinnumarkaðarins gerðu með skynsamlegri niðurstöðu í kjaramálum fyrr í mánuðinum. Við höfum átt tvo góða fundi með aðilum vinnumarkaðarins þar sem við höfum fjallað um stöðuna og horfur í efnahagsmálum og hvernig á málum verður tekið í framhaldinu.

Ég vil að lokum segja, virðulegi forseti, að sterk stjórn efnahagsmála ríkisstjórnarinnar og ábyrg afstaða aðila vinnumarkaðarins gefa einnig nýrri yfirstjórn og peningastefnunefnd Seðlabankans aukið svigrúm til þess að lækka vexti sem verður vonandi fljótlega. Ísland hefur, eins og önnur Norðurlönd, verið þekkt fyrir sveigjanleika og öflugt atvinnulíf samhliða velferðarkerfi sem margir hafa litið til með aðdáun. Nú verðum við að nýta okkur þá kosti og snúa vörn í sókn. Með sameiginlegu átaki getum við komist hratt og örugglega upp úr þessum djúpa öldudal og hafið enduruppbyggingu íslensks samfélags undir formerkjum jöfnuðar og réttlætis.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson beindi fleiri spurningum til mín. Ég hygg að ég hafi komið inn á nokkrar þeirra í framsögu minni en ég mun svara þeim sem eftir standa, sem ég held að séu tvær, í síðari ræðu minni.