136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

endurreisn efnahagslífsins.

[16:50]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Sú stefna sem ríkisstjórnin hefur markað um meðferð skulda atvinnulífsins er skynsamleg og rökrétt. Hún felur í sér að tekið verði málefnalega á vanda fyrirtækja og að ríkið taki virka afstöðu til þess sem eigandi ríkisbankanna hvernig taka skuli á þessum skuldamálum. Það verði ekki látið eftir tilviljanakenndum ákvörðunum hér og þar í bakherbergjum með ógagnsæjum hætti að taka á skuldamálum fyrirtækja.

Leggja verður almennar línur í þessu efni og það verður að taka á málum hvers og eins fyrirtækis. Það kann að hljóma vel að gefa fyrirheit um flatar niðurfellingar á skuldum en slíkt er óraunsætt og slíkt stenst ekki það samkomulag sem við höfum gert við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Við höfum í samningum okkar við sjóðinn undirgengist það að búa til faglegt ferli til að taka á skuldamálum fyrirtækja og taka á þeim í samræmi við það sem staða hvers og eins fyrirtækis gefur tilefni til. Við höfum jafnframt í því samkomulagi sem gert hefur verið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gengið sérstaklega út frá því að ekki verði um að ræða að ríkisvætt verði frekar það tap sem þó mun verða vegna efnahagshrunsins. Með öðrum orðum, kostnaðurinn vegna hrunsins verði ekki í meira mæli en nú er orðið felldur á almenning í landinu. Niðurfellingarleiðin felur það einmitt í sér. (Gripið fram í: Nei.) Það er engin önnur leið til að láta niðurfellingarleiðina ganga en að almenningur í landinu, þjóðarbúið í heild beri þann kostnað. (Gripið fram í.) Það er óraunsætt og rangt að halda því fram að einhverjir peningar verði til í samningum við erlenda kröfuhafa sem verði þá að einhvers konar þýfi sem við getum notað og deilt út á okkar forsendum án tillits til hinna erlendu kröfuhafa. Hinir erlendu kröfuhafar eiga á því rétt og heimtingu að íslenskum lögum að ekki sé gengið á eignarréttindi þeirra. Ef gengið er fram í samningum við þá með þeim hætti að af þeim eru teknar réttmætar eignir þeirra og þær notaðar til að gefa eftir skuldir annarra aðila óskyldra, geta þeir fengið slíkum samningum rift fyrir íslenskum dómstólum og munu fá það vafalaust. (Gripið fram í.)

Það er ekki svo að hægt sé að búa til peninga úr engu. Þar af leiðandi er rangt að leggja upp lausnir sem felast í því að flöt niðurfelling skulda sé valkostur við skynsamlega og agaða efnahagsstefnu í uppbyggingu eftir hrun. Við eigum að læra af reynslu nágrannalanda okkar og ganga sömu leið og þau með agaðri stefnu og skipulögðum (Forseti hringir.) aðgerðum af hálfu hins opinbera til að taka á erfiðum skuldavanda fyrirtækja. (Gripið fram í.)