136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

endurreisn efnahagslífsins.

[16:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Varla er hægt að hugsa sér mál sem við ættum frekar að ræða en einmitt það sem hér er til umræðu, þ.e. endurreisn atvinnulífsins og efnahagslífsins. Þess vegna urðu það þeim mun meiri vonbrigði að hlýða á hæstv. forsætisráðherra svara þeim spurningum sem fyrir hana voru lagðar áðan og innlegg hennar í þessa umræðu, því að þetta var í raun og veru mjög svipuð þula og við heyrum frásögn af vikulega á fundum hennar og hæstv. fjármálaráðherra í Þjóðmenningarhúsinu. Í raun og veru kom eiginlega ekkert nýtt fram í þessari umræðu. Með óljósum hætti var vísað inn í framtíðina hinum og þessum hugmyndum, fyrirætlunum og áformum en í raun og veru var ekkert nýtt í þessari umræðu, ekkert handfast sem gerði það að verkum að við gætum komið hér eftir þessa umræðu og sagt: Nú vitum við nákvæmlega hvar við stöndum, þessi umræða hefur skýrt það fyrir okkur. Það var ekki þannig, því miður, og það ber auðvitað að harma í þessari umræðu.

Það eru ýmis mál sem við þurfum sérstaklega að ræða um. Hæstv. ráðherra kom aðeins mjög lauslega inn á það sem allir eru að vekja athygli á, þ.e. mikilvægi þess að lækka vextina í landinu. Það sjá allir að við þessar aðstæður gengur ekki að vera með 18% stýrivexti, þeir eru gjörsamlega galnir og gera í rauninni ekkert annað en að búa til gjaldþrot, tortíma störfum og hneppa almenning í fjötra skuldabasls og það er ekki á það bætandi.

Ég hefði trúað því að hæstv. ráðherra mundi svara okkur því mjög afdráttarlaust hvort hægt væri að sjá mjög myndarlega vaxtalækkun strax. Samtök atvinnulífsins bentu á það fyrir mánuði síðan eða svo að vaxtalækkun við þessar aðstæður mundi skapa fljótlega sjö þúsund ný störf og það er tæplega helmingur þess atvinnuleysis sem við búum við í landinu. Fyrir rúmri viku eða þar um bil var sett á laggirnar ný nefnd, peningastefnunefnd, sem hefur sérstaklega það verkefni að fara yfir vaxtamálin. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra hvort hún og ríkisstjórnin muni ekki ganga eftir því þegar í þessari viku að sú peningastefnunefnd komi saman og segi álit sitt á því hvort ekki eigi að lækka þessa vexti tafarlaust. Það dugir ekkert að vísa þessu inn í framtíðina eins og hæstv. ráðherra gerði eða vísa til viðræðna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Peningastefnunefndin starfar sjálfstætt, hún hlýtur að segja álit sitt á því alveg burt séð frá því hvað líður viðræðunum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Þetta ástand getur ekki varað svona lengi, háir stýrivextir í bland við gjaldeyrishöft eru ástand sem getur ekki varað til lengri tíma. Við settum gjaldeyrishöftin á sínum tíma við sérstakar aðstæður til að hamla útstreymi á erlendu fé en núna eru komnar nýjar aðstæður og við verðum þess vegna að knýja á um þessi svör varðandi vextina.

Við upphaf núverandi ríkisstjórnar var sagt að bankarnir fengju sérstaka flýtimeðferð, greitt yrði fyrir því að hægt yrði að leggja fram stofnefnahagsreikning til bráðabirgða til að gera bankana starfhæfari. (Forseti hringir.) Þar vinnur gott fólk en það olli miklum vonbrigðum að heyra það frá hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) að við yrðum að bíða fram í lok apríl og kannski byrjun maí eftir því að (Forseti hringir.) hægt yrði að ljúka þessi uppgjöri gagnvart bönkunum. (Forseti hringir.) Það er mikið harmsefni, það eru mjög alvarleg tíðindi að heyra þetta.