136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

endurreisn efnahagslífsins.

[17:10]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa farið fram um mál málanna, sem er endurreisn efnahagslífsins og hvernig við komum í gang fyrirtækjum og grípum til aðgerða fyrir heimilin í landinu.

Ég vil mótmæla því sem mér fannst koma fram í lokaorðum hv. síðasta ræðumanns, að ríkisstjórnin væri ekkert að gera til þess að bjarga heimilum og fyrirtækjum, þvert á móti. (Gripið fram í.) Við erum vissulega á réttri leið og ég trúi ekki öðru en að hv. þingmaður geti fallist á það ef hann horfir á málið af sanngirni. Hér liggja mörg og mikilvæg mál fyrir þinginu til afgreiðslu, ekki síst til aðstoðar við heimilin í landinu. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir það frumkvæði sem hann hafði að því að taka þessa umræðu upp og ég fagna öllum góðum tillögum sem hér hafa komið fram, m.a. frá framsóknarmönnum. Sumar eru þess eðlis að við í ríkisstjórninni getum vel fallist á þær og þær falla vel að okkar ramma og aðrar ekki.

Ég er ósammála ýmsu sem kom fram hjá stjórnarandstöðunni. Ég er t.d. ósammála því sem kom fram hjá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni, að ekkert væri verið að gera í þessari ríkisstjórn. Ég veit ekki hvar hv. þingmaður hefur verið ef hann getur haldið slíku fram. Ég er líka gjörsamlega ósammála þeim orðum sem hann viðhafði um þann ágæta mann Mats Josefsson sem er að hjálpa okkur við endurreisnina, að draga í efa hæfileika hans og sérfræðiþekkingu og að hann þekki bókstaflega ekki íslenskt efnahagsumhverfi. Þetta er auðvitað alrangt.

Það sem kom fram hjá sjálfstæðismönnum var mjög sérstakt, t.d. það sem hv. þm. Einar Guðfinnsson sagði. Mér fannst hann beinlínis vera að segja að ég ætti að fara að skipa peningastefnunefndinni að fara í vaxtalækkun. Hv. þingmaður veit mætavel að það er ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar að skipa Seðlabankanum eða peningastefnunefndinni fyrir í því efni. En ég sagði það í ræðu minni hér áðan að ég tel að allar forsendur séu fyrir því að fara í vaxtalækkanir. Vaxtaákvörðunardagur er 19. mars og ég geri ráð fyrir því að við munum þá fara í vaxtalækkanir, allar forsendur eru til þess, en peningastefnunefndin starfar sjálfstætt.

Ég er líka ósammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni þar sem hann talar um að við ættum bara að skilja skuldirnar eftir í gömlu bönkunum. Það er ekki skynsamlegt að gera það vegna þess að í gömlu bönkunum eru t.d. — ég spyr hv. þingmann, ég veit að hann getur ekki svarað mér, en mér finnst mjög óeðlilegt að verið sé að tala um að skilja eftir skuldir í gömlu bönkunum, t.d. hjá fyrirtækjum sem hafa mikið samfélagslegt gildi. Skilja það eftir í höndum hverra, kannski erlendra kröfuhafa? Þetta er ekki skynsamleg leið að fara.

En ég er sammála því sem hann sagði, og reyndar fleiri hv. þingmenn, að það þarf að gera meira fyrir heimilin í landinu og að því erum við að vinna. Fara þarf í ákveðnar aðgerðir sem ég tel að muni sjá dagsins ljós í þeirri viku sem er að byrja, myndarlegar aðgerðir fyrir heimilin í landinu til viðbótar þeim fjölbreyttu og fjölmörgu (Forseti hringir.) aðgerðum sem liggja fyrir þinginu.