136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[17:24]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að hafa fengið hér orðið, var í sjálfu sér alveg tilbúin til að hinkra aðeins en ég þakka fyrir þetta.

Hér erum við með til 3. umr. frumvarp til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, um staðgreiðslu opinberra gjalda og um tekjuskatt. Málið fjallar um þær væntingar fólks að geta gengið að séreignarlífeyrissparnaði sínum til þess að mæta greiðsluerfiðleikum. Tillagan er af hálfu ríkisstjórnarinnar í þá veru að greiða út séreignarlífeyrissparnað í áföngum, allt að 1 milljón kr. á 10 mánuðum sem þýðir að í hverjum mánuði gæti fólk fengið greiddar út 100 þús. kr. en þegar skattar hafa verið dregnir frá eru um 63 þús. kr. til útborgunar. Tilgangurinn er, eins og ég kom að áðan, að koma til móts við fjölskyldur sem eru í greiðsluerfiðleikum. Við vitum að margar fjölskyldur eru í dag í vandræðum með að mæta skuldbindingum sínum og hafa einmitt litið til þess að þarna ættu þær séreignarlífeyrissparnað og hafa viljað sækja í það fjármagn til að mæta erfiðleikum sínum. Þetta er þá sparifé sem þær nota til þess að greiða niður skuldir og jafnvel í einhverjum tilvikum gæti fólk komið í veg fyrir að það missti húsnæðið.

Það er hins vegar verulegur galli á þessari útfærslu hæstv. ríkisstjórnar. Í fyrsta lagi er þetta mjög lág upphæð, þetta er lág upphæð að því marki að þegar hún er greidd út með þeim hætti sem lagt er upp með, að þetta séu 63 þús. kr. á mánuði, hjálpar það afskaplega lítið til þess að mæta greiðsluerfiðleikum. Ef fólk á annað borð á 1 milljón kr. í séreignarlífeyrissparnaði mætti í mörgum tilfellum ætla að þessar 63 þús. kr. yrðu notaðar í neyslu frekar en í að mæta greiðsluerfiðleikum. Þessu er dreift á allt of langan tíma þannig að þetta er ekki það úrræði sem ég tel að fólk hafi vænst að yrði.

Það verður einnig að horfa til þess að sú útfærsla sem ríkisstjórnin leggur til hefur veruleg áhrif á lífeyrissjóðina. Það er mikil hætta á því að þegar lífeyrissjóðirnir standa frammi fyrir því að leysa út bréf sín og þá til að greiða fólki til baka sparnað noti þeir þá bréf sem eru öruggust og kannski með bestu ávöxtunina. Þau bréf sem eftir verða í lífeyrissjóðunum verða þá með lægri ávöxtun og verða ekki eins trygg bréf, og hagsmunir þeirra sem ekki leysa út sinn séreignarlífeyrissparnað geta verið fyrir borð bornir með verðminni bréfum. Fólkið sem situr þá eftir verður ekki með eins öruggar tryggingar, ekki eins örugga sjóði á bak við og verri ávöxtun.

Það er líka ákveðin hætta á því að með því að gefnir séu þessir möguleikar muni fólk fara inn í lífeyrissjóðina, leysa út séreignarlífeyrissparnað sinn og jafnvel koma peningum sínum í betri ávöxtun ef fólk telur að sú sé raunin. Það mun hafa enn meiri áhrif á ávöxtun lífeyrissjóðanna til hins verra. Það kom mjög greinilega fram í máli fulltrúa lífeyrissjóðanna að þeir töldu að útfærsla ríkisstjórnarinnar væri ekki heppileg og horfðu þá m.a. til þeirrar leiðar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lagt til fyrir hönd minni hluta nefndarinnar, fyrir hönd sjálfstæðismanna í nefndinni.

Nú hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal ekki mælt fyrir nefndaráliti sínu þar sem hann þurfti að vera á öðrum stað en vonandi nær hann að koma inn í umræðuna áður en henni lýkur. Ég er með nefndarálit hans og minni hluta nefndarinnar fyrir framan mig þar sem hann lýsir áhrifum tillögu ríkisstjórnarinnar.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrir utan það að þessi lausn breytir sennilega mjög litlu fyrir þann sem á í verulegum erfiðleikum og er að missa heimili sitt er hugsanlegt að mjög margir muni nota tækifærið og flytja þennan hluta séreignar sinnar á venjulega bankabók, hugsanlega verðtryggða, þar sem traust manna á séreignarsparnaði hefur beðið nokkurn hnekki. Ef mikið verður um slíkar útgreiðslur getur viðkomandi lífeyrissjóður að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins stöðvað útgreiðslur til þess að hann þurfi ekki að selja eignir í hraðsölu til tjóns fyrir aðra sjóðfélaga. Þá gildir reglan „fyrstur kemur, fyrstu fær“. Vissan um það getur ýtt undir að fólk bregðist hratt við. Þá kemur fram mismunun á milli þeirra sem fylgjast vel með og vita og hinna sem ekki eru eins upplýstir. Minni hlutinn tekur undir alvarlegar viðvaranir Fjármálaeftirlitsins sem koma fram í umsögn eftirlitsins og varaði við þessu í nefndinni en hlaut ekki hljómgrunn.“

Minni hlutinn telur breytingartillögu sína leysa vanda þeirra sem eru í verulegum vanskilum sem þeir geta ekki greitt og eiga á hættu að missa húsnæði sitt en eru jafnframt með stórar upphæðir bundnar í séreignarsparnaði.

Hv. þm. Pétur Blöndal lýsir hugmynd sinni í framhaldsnefndaráliti minni hluta nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Hugmyndin gengur út á það að lífeyrissjóðurinn gefi út skuldabréf til viðkomandi lánastofnunar og skattheimtunnar með sömu kjörum varðandi gjalddaga og ávöxtun og séreignarsparnaðurinn sjálfur. Þannig má segja að lánastofnunin og skattheimtan verði „séreignarsparandi“ í stað einstaklingsins, sem hins vegar losnar úr viðjum vanskila og forðar heimili sínu frá uppboði. Lánastofnunin fær mjög góðan skuldara í stað vanskilanna og skattheimtan fær skatta með nákvæmlega sama hætti og fyrirhugað var að óbreyttri skattprósentu. Lífeyrissjóðurinn heldur áfram starfsemi sinni eins og ekkert hafi í skorist.“

Með þessari aðferð þarf ekki að verða tilfærsla á fjármagni úr lífeyrissjóðnum heldur kemur skuldabréf á móti þannig að lífeyrissjóðurinn þarf ekki að leysa út bréf.

Það kom mjög greinilega fram á fundi nefndarinnar að þarna horfðum við fram á það sem sumir vildu kalla „win-win-situation“, þ.e. að báðir aðilar standa betur á eftir. Það kemur betur til móts við þarfir fólks að fá upphæðina í einu lagi en ekki dreifa henni á 10 mánuði og staða lífeyrissjóðanna er óbreytt.

Það kemur m.a. fram í framhaldsnefndaráliti meiri hluta nefndarinnar að henni leist ágætlega á þessa útfærslu, ég gat ekki betur séð en að eftir fundinn hefði verið töluvert uppnám meðal meiri hlutans þar sem hann sá að þarna væri tillaga sem mætti skoða betur. Ég skildi umræðuna þannig að það yrði að einhverju leyti reynt að skoða hana með þeim hætti að hún yrði jafnvel yfirtekin og ríkisstjórnin mundi gera hana að sinni.

Það var sem sagt ekki gert og málið var afgreitt út úr nefndinni í morgun en í framhaldsnefndaráliti meiri hlutans kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur það jafnframt koma til greina að endurskoða fyrirkomulag útgreiðslu að fenginni reynslu og með hliðsjón af öðrum úrræðum til lausnar greiðsluvanda einstaklinga og heimila. Mælist nefndin til þess að fjármálaráðuneytið skoði breytingartillögu minni hlutans í þessu ljósi og meti þörfina á frekari úrræðum á síðari stigum.“

Þarna kemur fram að meiri hlutinn er ekki alls andsnúinn þessari tillögu og vill skoða hana nánar en eins og ég sagði áðan í andsvari mínu við hv. þm. Björgvin Sigurðsson, formann nefndarinnar, er ekki heppilegt að byrja á einni útfærslu sem er óheppileg fyrir fólk og hafa uppi einhver loforð um aðra útfærslu síðar. Þannig er í raun og veru skert jafnræði milli fólks.

Ég tel að útfærslan sem hér er lögð til sé vonbrigði fyrir fólk. Fólk hafði töluverðar væntingar um að geta gengið að séreignarlífeyrissparnaði sínum. Auðvitað mótmæltu ýmsar raddir eða töldu þessa leið ekki heppilega en niðurstaðan varð þessi og þingflokkur sjálfstæðismanna með hv. þm. Árna M. Mathiesen í fararbroddi lagði til ákveðnar breytingar í þessa veru. Ég tel að tillagan komi ekki nægilega vel til móts við fólk og mér finnst þessi útfærsla meira bera keim af því að það sé verið að klóra í bakkann en að mæta vanda fólks.

Síðan er annað mál sem snýr að lífeyrissjóðunum. Við sáum í dag að einn bankinn féll, Straumur fjárfestingarbanki féll í dag og það kemur fram í fréttaflutningi að lífeyrissjóðirnir hafa átt um 10% í Straumi – Burðarási. Í frétt á vefmiðlinum AMX kemur fram að lífeyrissjóðirnir tapi 1,2 milljörðum kr. á falli bankans. Jafnframt er bent á að tap sjóðanna sé jafnvel enn meira, enda kaupverð bréfanna hærra en sem nemur þessu. Verð bréfa í Straumi – Burðarási fór upp í 23 kr. í júlí 2007 en var á föstudaginn var komið ofan í 1,71 kr. Það þýðir að verðmæti bankans var 13 sinnum hærra í júlí 2007 en á föstudaginn. Tap lífeyrissjóðanna var að hluta til komið fram en það breytir því ekki að þetta er enn eitt áfallið hjá lífeyrissjóðunum.

Það hefur m.a. komið fram að bankahrunið hefur valdið 12–13% tapi og lífeyrissjóðirnir eru byrjaðir að birta tölur sínar um ávöxtun síðasta árs. VR tilkynnti þær nýlega og ávöxtunin er -11,7% hjá VR og mjög líklegt að ávöxtun annarra lífeyrissjóða sé á svipuðum nótum. Þetta er mjög alvarleg staða en ég verð að benda á að þrátt fyrir mikið áfall er tapið þó ekki meira en svo — maður hefði kannski haldið fyrir fram að það yrði meira — að staða lífeyrissjóðanna fer núna u.þ.b. tvö ár aftur í tímann, eignastaða þeirra er eins og hún var fyrir u.þ.b. tveim árum. Við megum ekki gleyma því að uppgangurinn þar á undan skilaði lífeyrissjóðunum mikilli ávöxtun í kjölfar þess mikla blómaskeiðs sem við upplifðum sem margir vilja meina að hafi síðan sprungið sem það gerði svo sannarlega. Við megum ekki gleyma því að lífeyrissjóðirnir náðu að safna miklum auði til framtíðar á blómaskeiðinu og hrunið færir lífeyrissjóðina þó ekki lengra en tvö ár aftur í tímann varðandi eignastöðu.

Núna í framhaldinu varðandi lífeyrissjóðina hljótum við að huga að endurskipulagningu þeirra. Einhvers staðar var sagt í dag eða í gær að bara rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna væri um 2 milljarðar kr. á ári og ég tel að það þurfi að fara í saumana á starfsemi þeirra og rekstrarkostnaði og að jafnvel verði að skoða að einhverju leyti sameiningu þeirra til þess að ná út hagstæðri stærð þannig að þeir geti með betri hætti þjónað þeim tilgangi sem þeim er ætlaður.

Við hljótum líka aðeins að velta fyrir okkur stöðu sjóðanna núna, hvernig þeir verja eignir sínar við þetta hrun. Hver er staða þeirra gagnvart bönkunum? Við hljótum að velta fyrir okkur hvort þeir séu einhver afgangsstærð hjá bönkunum, ekki að ég hafi neitt fyrir mér í því en ég held að þeir hljóti að skoða stöðu sína gagnvart bönkunum og hvernig hagsmuna þeirra er gætt þar. Bankarnir hafa tapað verulegum verðmætum og verðmætin eru sjóðir sjóðsfélaganna. Við stöndum frammi fyrir því í einhverjum tilvikum að sjóðirnir þurfi að skerða lífeyri félaga sinna sem verður mjög erfitt mál.

Þetta er sem sagt umræðan um útlausn á séreignarlífeyrissparnaði og mér þykir miður að meiri hluti nefndarinnar hafi ekki treyst sér til að velja leið sem margir telja að hefði gagnast mun betur, bæði lífeyrissjóðunum sjálfum, sem verða að gæta hagsmuna sinna og sinna félagsmanna og gæta jafnræðis á milli félaga sinna, og hins vegar fólkinu sem hafði miklar væntingar um að geta gengið að séreignarlífeyrissparnaði sínum til þess að hjálpa sér í greiðsluerfiðleikum.