136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[17:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Undarleg eru þau nú, uppátæki sjálfstæðismanna í þingsölum í dag. Það var talsverð umræða við upphaf þingfundar þar sem sjálfstæðismenn komu í pontu hver á fætur öðrum til að lýsa því yfir að þeir mundu nú styðja framgang allra góðra mála sem vörðuðu heimilin og atvinnulífið í landinu og býsnuðust yfir því að hér væru einhver önnur mál líka á dagskrá fundarins.

Ég held að það sé fróðlegt, ekki síst fyrir fjölmiðla, að velta fyrir sér hvaða leik Sjálfstæðisflokkurinn er í raun og veru að leika í þingsölum í dag. Hér er á dagskrá til 3. umr. brýnt hagsmunamál fyrir heimilin í landinu. Við 2. umr. flutti meiri hluti efnahags- og skattanefndar ýmsar breytingartillögur við frumvarpið sem allar voru samþykktar samhljóða. Frumvarpið við 2. umr. var samþykkt samhljóða með mörgum atkvæðum sjálfstæðismanna. Einn sjálfstæðismaður sat hjá.

Það mætti ætla að um þetta mál væri breið samstaða almennt séð þó að menn kunni að hafa skiptar skoðanir um einhverjar aðrar leiðir sem hugsanlega mætti líka fara. Sjálfstæðisþingmennirnir velja það núna að setja sig á mælendaskrá við 3. umr., hver á fætur öðrum, til að tala um þetta mál og núna er eins og þeir séu að draga í land þótt þeir hafi samþykkt breytingartillögurnar og frumvarpið við 2. umr. Núna tala þeir um að þeir vilji fara einhverja aðra leið.

Það sér hver maður sem vill að Sjálfstæðisflokkurinn og sjálfstæðismenn hér eru ekki að fara í þessa umræðu til þess að fara í þetta mál sérstaklega, heldur til þess að koma í veg fyrir eða tefja að næsta mál á dagskrá, stjórnarskipunarlögin, komist að. Þetta finnst mér ekki liður í því að styðja öll góð mál ríkisstjórnarinnar sem varða heimilin og atvinnulífið í landinu. (Gripið fram í: Stjórnarskráin.)