136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[17:41]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var undarleg ræða hjá hv. þingmanni. Það liggur alveg ljóst fyrir að þingflokkur sjálfstæðismanna styður það að séreignarlífeyrissparnaður landsmanna verði þeim aðgengilegur. Hv. þingmaður veit líka að það kom tillaga frá hv. þm. Pétri H. Blöndal milli 2. og 3. umr., kom reyndar á fundi rétt áður en farið var í 2. umr., og hún var þó þess virði að mati hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að skoða hana nánar.

Á fundi í morgun, síðasta fundi nefndarinnar áður en málið var afgreitt til 3. umr. — það var haldinn fundur á milli 2. og 3. umr. — var þess vænst að niðurstaða kæmi úr skoðun hv. þingmanna meiri hlutans.

Þetta kemur engu málþófi við. Við erum tilbúin að leggja allt okkar af mörkum til að tryggja framgang góðra mála, en ef málin geta verið enn þá betri tel ég að hv. þingmaður sé ekkert of mikill til að skoða þau. Það hefur hann reyndar gert og komist að annarri niðurstöðu. Ég veit ekki hvort það var tímaþröng eða hvað olli því að hann treysti sér ekki til að taka undir þessa tillögu sem honum þótti þó góðra gjalda verð fyrir tveimur dögum.

Við erum ekki að tefja eitt eða neitt. Við tökum hins vegar þátt í lýðræðislegri umræðu sem hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni er mjög tamt að tala um, en þegar hún snýr að einhverjum öðrum en honum leggur hann hana út á versta veg. Við erum tilbúin til að ræða þessi mál og önnur, en ef hægt er að bæta góð mál er engin ástæða til að sitja á þeim. Það er það sem við erum að gera, við erum að koma með umræðu um mál sem má gera jafnvel enn betra en það er.