136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[17:43]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vitaskuld er Sjálfstæðisflokkurinn að reyna að koma í veg fyrir eða tefja það að 3. mál komist hér á dagskrá, það er alveg bersýnilegt. Þeir um það og þeir verða að eiga um það við sína samvisku.

Ég vek bara athygli á því að þegar málið var hér til 2. umr. með breytingartillögum frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar samþykktu m.a. eftirtaldir þingmenn úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins frumvarpið þannig breytt: Ármann Kr. Ólafsson, Árni Mathiesen, Birgir Ármannsson, Björn Bjarnason, Geir H. Haarde, Guðlaugur Þór Þórðarson, Herdís Þórðardóttir, Illugi Gunnarsson, Jón Magnússon, Ólöf Nordal, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Sturla Böðvarsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir. Þetta voru þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hér voru viðstaddir og studdu málið. Breytingartillagan sem hér um ræðir lá fyrir á þeim tímapunkti, hafði verið til umræðu og henni hafði verið dreift fyrir 2. umr. (Gripið fram í.) Já, henni hafði verið dreift þannig að hún lá fyrir, hún lá líka fyrir í nefndinni og hafði verið rædd þar að sjálfsögðu, (Gripið fram í.) þessi útfærsla, þannig að það var alveg ljóst.

Í framsöguræðu hæstv. fjármálaráðherra þegar hann mælti fyrir málinu var þess líka getið að þessi leið hefði verið skoðuð og hún var alls ekki útilokuð. Það er það sem kemur fram í framhaldsnefndarálitinu núna, að það kemur að sjálfsögðu til greina að skoða þessi mál frekar en það væri mjög óráðlegt að reyna að koma í veg fyrir að þetta mál yrði afgreitt hér og nú, jafnvel þó að einhverjar frekari úrlausnir kynnu að koma til umræðu og athugunar á síðari stigum.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ekki skynsamlegt hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að fara svona yfir málið. Þetta er sama aðferð og þeir beittu við virðisaukaskattsmálið sem hér var afgreitt sem lög frá Alþingi í síðustu viku. Þá komu þeir allt í einu við 3. umr. og settu á langar ræður hver á fætur öðrum sem bersýnilega var líka í þeim tilgangi að reyna að tefja umræður, þeir studdu málið (Gripið fram í.) að sjálfsögðu en reyndu bersýnilega að tefja fyrir að málið yrði afgreitt.

Ég get ekki dregið aðra ályktun en þá að Sjálfstæðisflokkurinn sé einfaldlega að reyna að tefja þetta mál þrátt fyrir öll fögru orðin um að styðja góð mál frá ríkisstjórninni sem horfa til heilla fyrir fjölskyldur og atvinnulíf. (Gripið fram í.) Niðurstaðan er sú að þeir eru að sjálfsögðu að reyna að tefja að 3. málið komist á dagskrá sem þeir gerðu miklar athugasemdir við í upphafi þingfundar að væri yfirleitt til umræðu.