136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[17:46]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á von á því að það frumvarp komi til umræðu hér á eftir en ég ætla að lýsa minni hlið á málinu.

Eins og áður hefur komið fram í máli mínu sat ég þennan fund fyrir helgina þar sem þetta mál var til umræðu. Það var stuttur fundur en þar sem ég þekki lífeyrissjóðamál mjög vel er ég kannski dálítið glögg á málið og gæti sett mig inn í það á stuttum tíma. Eftir þann fund litum við svo á, m.a. vegna viðbragða hv. þingmanns sem stjórnaði honum, að ákveðinn möguleiki væri á því að meiri hlutinn tæki undir tillöguna. Þess vegna var breytingartillaga hv. þm. Péturs H. Blöndals dregin til baka við 2. umr. og við studdum þær breytingartillögur sem komu frá meiri hlutanum.

Ég átti von á því á fundinum sem haldinn var í morgun að breytingartillagan frá hv. þm. Pétri H. Blöndal yrði tekin til umræðu og jafnvel tekið undir hana. Þess vegna studdu hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hana við atkvæðagreiðsluna við 2. umr. og drógu hina til baka til að hún yrði ekki felld, vegna þess að við töldum að hún mundi þá fá frekari skoðun og væntum þess að hún yrði jafnvel afgreidd út í morgun. Svo varð ekki. Það er fyllilega ástæða til þess að halda þeirri tillögu á lofti. Okkur þykir hún betri en sú sem hv. þingmaður heldur fram og því ættum við ekki að taka lýðræðislega umræðu um það?

Við sjáum líka að hv. þingmaður og félagar hans hafa að sumu leyti tekið undir tillöguna, m.a. í nefndarálitinu þar sem þeir telja ástæðu til að taka sérstaklega fram að skoða þurfi þessa tillögu nánar þannig að við hefðum kosið að nefndin hefði treyst sér til að ganga lengra. En við erum í fullum rétti til að standa upp, taka lýðræðislega umræðu, mæla fyrir máli okkar (Forseti hringir.) og fylgja því eftir.