136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég spurði einmitt að þessu og velti þessu upp. Þetta þýðir í rauninni að menn byrja á því að veita öllum heimild til að taka út milljón krónur í eitt skipti, deilt á 10 mánuði, þ.e. 63.000 kr. á mánuði í 10 mánuði — eftir skatt. Menn heimila þessa útgreiðslu til allra.

Mér skilst að meðalupphæðin á séreignarsparnaði sé u.þ.b. 2 milljónir. Þetta er óskaplega dreift, margir eru með mjög litla upphæð, og það liggur ekki einu sinni fyrir samkeyrsla á þessu vegna þess að menn geta átt séreignarsparnað í mörgum lífeyrissjóðum, í mörgum bönkum, kannski lítið hér og meira þar og það hefur ekki verið keyrt saman hvernig dreifingin á þessu er, hver hámarksupphæðin er og hve margir eiga yfir 10 milljónir, hve margir yfir 5 milljónir, hve margir undir 100.000 kr. o.s.frv. Menn renna dálítið blint í sjóinn með það hvernig þessar upphæðir verða en þar sem meðalupphæðin er um 2 milljónir er ljóst að það geta komið til mjög stórar útgreiðslur ef allir nýta sér möguleikann.

Það fékkst ekki uppgefið hvað það yrði. Reyndar setja menn upp ákveðið kerfi þar sem ríkisskattstjóri á að tékka það af að menn fari ekki umfram þetta hámark, samanlagt úr öllum lífeyrissjóðunum, en sú leið ríkisstjórnarinnar er bara ekki nógu sniðug. Það kemur í ljós að það þarf að hafa eftirlit með þessu af því að menn geta tekið út milljón úr þessum séreignarsjóði og milljón úr hinum. Þess vegna þarf að hafa eftirlit með þessu og ríkisskattstjóri á að tékka það af hvað menn taka mikið út. Ég óttast að það gerist — sem maður vonar að gerist ekki — að það verði útstreymi úr lífeyrissjóðunum sem þeir ráða ekki við.