136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[18:52]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég lendi í ákveðnum vanda með að svara þessu. Það var beint til mín spurningu var um hvað gerist, segjum að fyrst verði þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar sett á og svo yrði mín leið skoðuð — það þýðir ekkert annað en það að þeir sem eru í vandræðum eru væntanlega búnir að taka út milljónina sína, hjón 2 milljónir. Síðan ef mín tillaga yrði tekin gætu þau tekið restina, kannski 15 milljónir, og hugsanlega ef menn eru snöggir er kannski ekki búið að selja heimilið á uppboði en hættan er sú að allt sé um garð gengið. Nú förum við í kosningar, það gerist ekki mikið á þeim tíma, stjórnarmyndanir, sumarþing, jú, það er hugsanlegt að gera eitthvað þá ef samstaða yrði um það áfram að keyra svona hugmynd í gegn. Ég veit ekki hvort menn hafa tíma til þess þá, það eru mörg mál sem bíða, mjög mörg mál sem þarf að taka afstöðu til. Ég sé þetta fyrir mér, vonandi í sumar, að þessi hugmynd verði tekin upp og menn geti þá tekið restina en þá er hugsanlegt að lífeyrissjóðirnir séu komnir í þá stöðu að þeir hafi ekki lengur handbært fé, ekki lengur eignir eða lausafé til að borga þetta út. Reyndar eins og hugmyndin er skiptir það ekki máli þar sem þetta er bara tilfærsla, en það er viðbúið að traust manna á séreignarsjóðunum hafi beðið mikinn hnekki, þ.e. ef þetta gengur eftir sem ég bendi á og vara við en ég vona svo innilega og sannarlega að til þess komi ekki.