136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[18:58]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er ekki verið að gusa út fé, þvert á móti eru einmitt settar takmarkanir á það hve mikið er borgað út og þess vegna er hámark sem gildir um hvern mánuð fyrir sig þó að heildarupphæðin sé u.þ.b. 1.200 þús. kr. á ári. Ég fellst heldur ekki á að þetta hafi verið unnið í miklum flýti, það hefur verið legið yfir þessu í allt haust, að koma til móts við þær kröfur að fólk geti notað þennan sparnað sinn til að grynnka á skuldunum. Það hefur bara vafist fyrir mönnum hvernig eigi að nálgast það verkefni. Þetta varð sem sagt lendingin sem hér er um að ræða og hér liggur fyrir og ég hef hlustað á röksemdir hv. þm. Péturs Blöndals um aðra leið í þessu sem hann hefur kynnt og lagt fram í sérstakri tillögu. Ég hlustaði á fulltrúa bæði fjármálaráðuneytis, sérfræðinga og fulltrúa lífeyrissjóðanna og þeir eftir atvikum höfnuðu ekki þeirri leið alfarið sem hv. þingmaður gerir tillögu um, en þeir töldu sig þurfa mun betri tíma til að átta sig á þeim afleiðingum sem það hefði í för með sér. Það varð til þess að við töldum, meiri hlutinn í nefndinni, að það væri nauðsynlegt að koma þessu máli strax til afgreiðslu hér eins og það liggur fyrir og hefur legið fyrir og hins vegar opna á það að í framhaldinu verði sú aðferð sem hv. þm. Pétur Blöndal stingur upp á skoðuð. Það er því alls ekki útilokað að hægt sé að nálgast þau sjónarmið sem hann hefur kynnt um að skuldabréf séu gefin út og menn þurfi ekki að fara að taka út peninga eða leggja inn peninga heldur séu þetta bara skipti á skuldabréfum gagnvart þeim lánastofnunum sem fólk þarf að gera upp við þegar það er komið í skuldir vegna húsnæðis.