136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[19:01]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég kalla það að gusa út þegar allir eiga rétt, bæði landið og miðin, á að taka út milljón. Þeir sem eiga minna en milljón taka náttúrlega ekki út meira en þeir eiga en þarna er verið að opna á sparnað sem átti að vera fastur, naut skattfrelsis og þurfti ekki að borga fjármagnstekjuskatt af. Sparnaðurinn nýtur ýmissa ívilnana til að hann sé fastur til loka vinnualdurs, þar til menn fara á eftirlaun, þannig að ég kalla það að gusa út þegar menn fá þetta án tillits til þarfar. Allir fá þetta en þó ekki nema upp að milljón og það býr til vandamál því að vandinn sem við erum að leysa er allt annars eðlis. Við ætlum ekki að leysa neysluþörf heimilanna, til þess höfum við atvinnuleysistryggingar og aðrar tryggingar, sveitarfélögin og annað slíkt, en vandinn sem ég hélt að ætti að leysa er vandi þeirra sem eru í miklum vanskilum og eru að missa heimili sín og þeim er ekkert hjálpað með þessu. Það finnst mér dapurlegt.

Það að lífeyrissjóðirnir hafa ekki fallist á þessa hugmynd, eða ekki haft nægan tíma. Ég viðurkenni að 10 mínútur eru ekkert voðalega langur tími til að skoða svona tillögu. Mér skilst að þeir hafi ekki séð hana fyrr en á fundinum þegar þeir mættu og síðan hefur ekki gefist tími til að senda tillöguna til umsagnar eða fá álit þeirra aftur. Á fundinum í morgun var þetta afgreitt á örstuttum tíma og þar með var málið úti og ekki einu sinni tekið á þeim vanda sem ég hafði vonast til að menn tækju þó alla vega inn að ekki verði farið út í þessa aðgerð nema lausn finnist á vanda viðkomandi manns þannig að hann verði ekki gjaldþrota á eftir og upphæðin tapist.