136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[19:03]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Hér er, eins og fram hefur komið í umræðum í dag, afar vandasamt mál á ferðinni. Í tíð fyrri ríkisstjórnar sat ég í hóp sem starfaði allt frá því í byrjun nóvember og hafði m.a. það verkefni að leita leiða til að taka út séreignarlífeyrissparnað. Óhætt er að segja að afar mörg sjónarmið komu upp í vinnu þeirrar nefndar og í upphafi hafði ég verulegar áhyggjur af því hvernig ætti að gera þetta vegna þess að sjónarmiðin toguðust mjög á. Annars vegar er það hinn mikli vandi heimilanna og eðli séreignarsparnaðarins, sem er auðvitað viðbótarsparnaður, og hins vegar hagsmunir lífeyrissjóðanna sem eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra vegna þess að hagsmunir lífeyrissjóðanna eru ekkert stakir hagsmunir þeirra sem með það fé fara heldur er þetta grunnur að öllu kerfi okkar.

Þegar hrunið varð lentu lífeyrissjóðirnir í því að eignir þeirra voru illseljanlegar og alveg vitað að þegar opnað yrði á það kerfi væri langlíklegast að betri eignirnar og það sem laust væri færi fyrst út og eftir sætu verri eignir sem þyrftu að standa undir því sem eftir væri í sjóðakerfinu. Þetta er sjónarmið sem þurfti að skoða um leið og mikill vilji var til þess af hálfu Sjálfstæðisflokksins að reyna að nýta þetta kerfi til að hjálpa fólki í þeim mikla vanda sem fram undan er.

Í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er gert ráð fyrir því að við ákveðnar aðstæður sé unnt að taka út séreignarlífeyrissparnað. Verði rétthafi öryrki á hann rétt á að fá sparnaðinn greiddan út eftir ákveðnum reglum og ef dauðsfall ber að höndum er líka ákveðin heimild til að taka sparnaðinn út og um það gilda ákveðnar reglur. Gert er ráð fyrir því að úttektartímabilið standi í nokkur ár eftir að atburðurinn varð sem olli þessu. Þegar litið er til þess að séreignarsparnaðurinn er að einhverju leyti túlkaður eða metinn sem áfallasjóður var að mati þeirra sem komu að málinu í tíð fyrri ríkisstjórnar ástæða til að líta á það sem hefur gerst hjá mörgum heimilum í landinu, þar sem tekjumissirinn og vandinn er svo gífurlegur að jafna má því við meiri háttar áfall í tilvist fjölskyldna. Við þær aðstæður þótti okkur eðlilegt — og raunar má segja að frumvarp hv. þm. Árna M. Mathiesens beri vitni um að menn töldu ástæðu til — að hleypa skuldteknum fjölskyldum inn í þennan sparnað. Eftir stendur síðan almenna lífeyrissjóðakerfið. Á þeim tíma var líka gagnrýnt að þar væri verið að kippa fótunum undan fólki. Ef fólk kæmist engu að síður í þrot væru peningarnir horfnir. Auðvitað er rétt að sú staða gæti komið upp en engu að síður er um viðbót að ræða þannig að þetta var ákveðið sparnaðarform sem ríkið lagði mikla áherslu á að koma í gang á sínum tíma og þess vegna þótti mönnum eðlilegt og athugandi að skoða þetta.

Ég hjó eftir því að það var nefnt í umræðunni áðan, m.a. af hv. þm. Ellert B. Schram, að í ljós hefði komið að frumvarp sjálfstæðismanna væri ekki tækt og opið í alla enda og kanta og þess vegna hefði það ekki hlotið meiri umræðu. Ég held að þar gæti einhvers misskilnings vegna þess að í því frumvarpi er einungis gert ráð fyrir að unnt sé að taka út séreignarlífeyrissparnað sem skuldajöfnun á móti kröfu en ekki sem fjármuni til óskilgreindra nota. Þetta er mjög mikilvægur munur og mikill eðlismunur á. Ekki var um að ræða ákveðna tölu í því frumvarpi eins og í frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra. Þar er gert ráð fyrir 1 millj. kr. og féð skal greitt út með ákveðnum hætti en ekki skilgreint í hvað það á að fara þannig að ekkert kemur í veg fyrir að það fari í almenna notkun inni á heimilunum. Nú er ég ekki að segja að vandi fólks geti ekki verið svo mikill að það veiti ekkert af hverri krónu en féð fer ekki endilega á móti húsnæðisskuldum eða slíkum skuldum, sem að mínu mati eru kannski grunnurinn fyrir því að opna á þessa sjóði.

Ég veit ekki hvernig þetta þroskaðist í meðförum nýrrar ríkisstjórnar en ég skynja að menn reyna að stíga varlega til jarðar. Ég segi hins vegar á móti að ákveðin rýmkun er í því fólgin að hafa þetta svona opið og þarna er ákveðinn misskilningur á ferðinni. Einnig var rætt um það í vetur, sem ég hef ekki heyrt á neinu máli stjórnarliða, að hægt væri að hugsa sér að nýta þá fjármuni sem veð á móti peningum sem yrðu teknir út en alls konar spekúlasjónir voru í gangi um hvernig hægt væri að nýta þetta.

Ég hygg að þegar um er að ræða — hvað á ég að segja, það eru grundvallaratriði hvernig farið er með séreignarsparnað og menn skulu gæta að því að íslenska lífeyrissjóðakerfið er mjög merkilegt. Allt sem við viljum gera verður að vera með það að markmiði að passa upp á það kerfi en ég hugsa að eðlilegt sé fyrir hæstv. fjármálaráðherra og það ágæta fólk sem í fjármálaráðuneytinu starfar að kanna hvort hægt sé að gera einhverjar frekari breytingar á því kerfi ef, sem ég á kannski frekar von á, þörf heimilanna í landinu mun haldast eins og hún hefur verið. Mig grunar og veit að margir taka undir það að þegar fer að vora muni vandinn kannski kristallast mun betur en orðið er og þegar húsnæðislánin halda áfram að tikka inn og tekjurnar verða minni og á sumum heimilum afar litlar eða engar munu menn horfa betur á þá peninga sem þarna eru.

Líka er mikilvægt fyrir okkur sem ræðum þessi síðustu lífeyrissparnaðarmál að skapa ekki of miklar væntingar í hugum fólks um hversu miklir peningar eru þar til staðar. Sannleikurinn er sá að flestir eiga þarna fáeinar milljónir kr. og það getur skilið á milli feigs og ófeigs, en ekki mjög margir sem eiga verulega fjármuni. Ég er ekki endilega viss um að mjög margir þeirra sem eiga slíka fjármuni þurfi á þeim að halda þannig að svolítið þarf að passa upp á að fólk haldi ekki að það sem er þarna inni sé meira en það er.

Hins vegar er það svo að margir þeirra sem eru að missa vinnuna höfðu háar tekjur og höfðu sinnt séreignarsparnaði og þarna gætu verið fjármunir sem hjálpa þeim þannig að þeir þurfi ekki að fara í enn erfiðari aðgerðir til að bjarga heimilisrekstri sínum.

Undanfarna daga höfum við í þinginu rætt nokkuð þau mál sem kannski eru best til þess fallin að hjálpa heimilunum í landinu í þeim vanda sem að steðjar. Á föstudaginn var ágætt mál til umræðu, virðisaukaskattur í 3. umr. Áðan heyrði ég að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, varaformaður efnahags- og skattanefndar, taldi mikinn vansa að því að verið væri að ræða þessi sjónarmið um séreignarsparnaðinn í 3. umr. en á föstudaginn komust afar fáir að í þessari umræðu. Ef þingheimur hefur ekki erindi til að ræða þessi mál finnst mér illa fyrir mönnum komið vegna þess að hér er um að ræða mál sem er að öllu leyti þannig vaxið að það krefst ákveðinnar umræðu. Á föstudaginn kom fram á milli umræðna í þinginu ákveðin hugmynd frá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem ekki var tekin til atkvæða á föstudaginn vegna þess að hún var kölluð aftur inn í nefndina til athugunar. Auðvitað eiga þingmenn að hafa tækifæri til að kynna sér þær hugmyndir og auðvitað eiga stjórnarliðar að fagna því að menn séu reiðubúnir til að ræða allt sem til bóta má vera í svona máli. Ég skildi það þannig að menn vilji skoða þetta áfram. Ég styð auðvitað að menn hraði þessum brýnu verkefnum en vegna þess að þetta mál hefur haft töluvert langan aðdraganda hefði ég kosið að í greinargerðinni sjálfri hefði nokkru meiri grein verið gerð fyrir því í hverju vinnan í vetur hefur falist, vegna þess að þetta byrjaði á vettvangi vinnuhópa á vegum félagsmálaráðherra áður en það fór inn til fjármálaráðuneytisins og endaði síðan í sérstökum undirhóp sem starfaði fyrir fyrri ríkisstjórn. Þar veltu menn ýmsum hlutum fyrir sér og ekki kemur á óvart og ætti raunar að vera eðlilegt að menn geri grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þar voru og af hverju hlutirnir eru svona en ekki hinsegin.

Lífeyrissjóðirnir eiga auðvitað að vera mjög varkárir. Verkefni þeirra er að passa upp á það að eins skammt sé gengið og hægt er. Það er ekkert launungarmál að töluvert þurfti að sannfæra lífeyrissjóðina um að hleypa yfirleitt nokkrum inn í þetta kerfi við þessar aðstæður. Ef viðbrögð lífeyrissjóðanna hefðu verið önnur hefði það komið mjög á óvart vegna þess að það er auðvitað meginhlutverk þeirra að gæta þess að vel sé haldið utan um þessa fjármuni þegar við blasti þetta mikla hrun sem enn sér ekki fyrir endann á.

Það voru ekki góð tíðindi sem blöstu við okkur í morgun að Fjármálaeftirlitið hefði tekið yfir Straum – Burðarás fjárfestingabanka hf. og ég heyri í fréttum að menn hafa miklar áhyggjur af sparisjóðakerfinu í landinu. Sparisjóðabankinn var alla helgina til skoðunar í Fjármálaeftirliti, eftir því sem mér skilst af fréttum, í viðræðum við forsvarsmenn þar og litlu sparisjóðirnir eru náttúrlega mjög uggandi um sinn hag þannig að ekki er undarlegt að lífeyrissjóðirnir, sem hafa verið ákveðið hryggjarstykki í mörgum fyrirtækjum í landinu, vilji passa sérstaklega upp á þá fjármuni sem þeir hafa undir höndum og að þeir tapist ekki óeðlilega eins og maður hefur auðvitað haft áhyggjur af að gæti orðið. Mér finnst eðlilegt að opnað sé fyrir þetta. Fólk kaus í upphafinu að greiða peninga inn í séreignarsparnaðinn og það var ákvörðun sem heimilin tóku sjálf til að auka sparnað sinn og sérstaklega þegar gert er ráð fyrir því í lögunum að þetta gætu orðið einhvers konar áfallaákvæði. Þótt við sjálfstæðismenn ræðum einstakar útfærslur og bendum kannski á það sem hefði getað verið öðruvísi í frumvarpinu mega menn ekki vera svo viðkvæmir að túlka það þannig að við séum á móti því. Það er ekki svo. Við munum greiða málinu atkvæði okkar. Það höfum við sagt allan tímann og það er óþarfaviðkvæmni af hálfu stjórnarliða að líta svo á að við megum ekki hafa skoðun á málinu, sérstaklega þegar fyrir liggur að örskammt er síðan Sjálfstæðisflokkurinn hafði fjármálaráðuneytið á sinni könnu og hafði þetta mál til meðferðar. Hv. þm. Árni M. Mathiesen gerði ágætlega grein fyrir því í máli sínu áðan hvernig þetta hefur allt saman borið að.

Ég vona að við munum í framhaldinu sjá fleiri frumvörp og frekari hugmyndir um hvernig leysa eigi úr bráðavanda heimilanna. Ég vona að ríkisstjórnin muni einbeita sér að því að koma með hugmyndir og tillögur til að hjálpa fólkinu sem býr í þessu landi til sjálfshjálpar í stað þess að eyða svona óskaplega miklum tíma í það að breyta stjórnarskrá lýðveldisins við þessar aðstæður. Ég held að það hvíli ekki efst í huga fólks sem er í vandræðum með að borga af húsnæðislánunum sínum. Ekki held ég að menn hafi áhuga á því að vita að það standi til að eyða einum til einum og hálfum milljarði króna í stjórnlagaþing þegar við blasir slíkur vandi hjá heimilum í landinu og menn eru hikandi við að taka út peninga eða setja peninga í bráðaaðgerðir til handa heimilunum. Ég vona að ríkisstjórnin einbeiti sér að þeim verkefnum í stað þess að dunda sér við stjórnarskrárbreytingarnar sem nú virðast taka hug manna allan.

Ég hef fundið það mjög greinilega undanfarna daga og veit að svo á við marga aðra þingmenn að það sem stendur upp úr hverjum einasta manni er: Hvað ætlið þið svo að gera til að hjálpa heimilunum í landinu? Hvað ætlið þið að gera þegar við erum svo mörg í vandræðum með að borga af húsnæðislánunum okkar? Ætlið þið að taka undir með framsóknarmönnum um þessa 20% niðurfellingu skulda eða ætlið þið að koma með hugmyndir um lengingu lána eða hvað ætlið þið að gera? Hvað ætlar þingheimur að gera til að hjálpa til við þær aðstæður sem hér eru? Þetta eru allt sjónarmið sem mér finnst eðlilegt að komi fram hjá fólki. Þetta er akkúrat það sem fólk vill heyra um og ekki hafði Framsóknarflokkurinn fyrr komið með hugmynd sína, sem verður að segjast að var mjög róttæk, en hv. stjórnarherrar kepptust við að hlæja hana út af borðinu. Ekki var mikill vilji til að ræða hugmyndir þess flokks sem ver ríkisstjórnina falli.

En ég eins og ég segi og hef sagt áður er þetta mál sem mér finnst áhugavert og styð og vann að því í tíð fyrri ríkisstjórnar og mun að sjálfsögðu greiða því atkvæði mitt.