136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[20:01]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lög nr. 45/1997, um staðgreiðslu opinberra gjalda og lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

Talsvert mikið hefur heyrst í umræðunni eftir fall bankanna og þau áföll sem heimilin í landinu hafa lent í að nauðsynlegt sé að gera allt sem hægt er til þess að létta undir greiðslubyrði heimilanna og koma til móts við þá aðila sérstaklega sem hafa lent í áföllum vegna falls bankanna, eins og þá sem hafa misst atvinnu og þá sem skuldir hafa hækkað mikið hjá.

Ég man eftir því að í tíð síðustu ríkisstjórnar skipaði Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. félagsmálaráðherra, nefnd sem fékk það hlutverk að fjalla um til hvaða aðgerða væri hægt að grípa varðandi einmitt heimilin. Þar var ýmislegt rætt. Ég man að ég sagði úr þessum stól að ég teldi nauðsynlegt í ljósi þess áfalls sem dundi á okkur að það ætti að taka upp svokallaða hamfaravísitölu á lán, þ.e. að í ljósi þess að bankakerfið féll nánast á einni nóttu í heild sinni, krónan féll, væri hægt að líkja þessu við það að lenda í hamförum þar sem enginn réði neitt við neitt og þar með væri eðlilegt að ekki bara skuldarar tækju á sig áföllin vegna þessara hamfara, heldur væri eðlilegt að þau skiptust með einhverjum hætti á milli aðila, þ.e. þeirra sem ættu innstæður og fjármagn og þeirra sem skulduðu. Þessi nefnd hæstv. félagsmálaráðherra lagði til að skipaður yrði sérstakur sérfræðingahópur sem fjallaði um það. Sá hópur fór mjög ítarlega yfir þau mál og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri rétt að taka upp slíka hamfaravísitölu. Ég hef í sjálfu sér skilning á þeirri niðurstöðu að mörgu leyti. Í staðinn var tekin upp þessi svokallaða greiðslujöfnunarvísitala sem hefur að vísu ekkert létt mjög mikið á greiðslubyrði þeirra sem eru með hefðbundin vísitölulán og skulda í íslenskum krónum, en þessi títtnefndi sérfræðingahópur virtist ekki hafa skilning á því að það væri eðlilegt að þessar byrðar skiptust á milli fjármagnseigenda og þeirra sem bera skuldir.

Síðan fjallaði hópurinn um fjölmarga aðra hluti, m.a. það sem hér er síðan um að ræða, þessa endurgreiðslu á séreignarlífeyrissparnaði. Þar sem hæstv. forseti var líka í þessari nefnd man hún að þessi hópur var mjög hugsi yfir því hvort þetta væri æskilegt og rétt. Ýmsir aðilar voru kallaðir til, m.a. fulltrúar lífeyrissjóðanna og fleiri sérfræðingar, og þeir spurðir álits á þessu. Menn skiptust í tvö horn, sumir töldu þetta sjálfsagt mál og eðlilegt en aðrir töldu að ekki væri rétt að gera þetta í ljósi þess að þetta mundi vega að lífeyrissjóðakerfinu, þó að þetta væri eingöngu séreignarsparnaðarhlutinn sem um væri að ræða mundi þetta vega að lífeyrissjóðakerfinu og í rauninni mundi hugmyndafræðin á bak við kerfið bíða hnekki.

Ég og ýmsir í nefndinni gátum fallist á það og þess vegna köstuðum við þessu á milli okkar í svolítinn tíma. Þá var afstaða Samfylkingarinnar og fulltrúa hennar í nefndinni í rauninni sú að þetta bæri að gera og það bæri að ganga miklum mun lengra en gert er í þessu frumvarpi. Það má líka alveg draga það fram að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins töldu að það bæri að fara mjög varlega í þetta og það verður að viðurkennast að boltanum var svolítið kastað á milli með þetta og einn af fulltrúum Samfylkingarinnar taldi að við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins værum allt of stíf á þessu. Einhvern veginn náðum við að verða sammála um að þetta bæri að gera og eftir að við höfðum fengið álit stærðfræðinga og fleiri aðila á þessu töldum við hægt að greiða út þessar inneignir.

Þó að mörgum finnist kannski að það ætti ekki að vera neitt mál að greiða út inneign af þessum toga var eitt af því sem kom mjög skýrt fram í viðræðum við aðila að stór hluti pappíranna í séreignarlífeyrissparnaðarkerfinu hefði lækkað mjög mikið í verði þegar markaðir féllu og þess vegna væri mjög slæmt fyrir sjóðina að fara að losa þá á því verði sem fengist fyrir þá, það yrði nokkurs konar brunaútsala á þessum pappírum. Hins vegar væri hægt að skipta hluta af eignum sjóðanna í peninga.

Í svona tilvikum verður hins vegar að gæta jafnræðis. Sú spurning kom upp hvort það væri rétt að þeir sem tækju út úr sjóðunum núna tækju alla bestu pappírana út úr sjóðunum og þeir sem ekki fengju heimild, eins og þetta var hugsað þá — þá var þetta hugsað þannig að það yrði eingöngu til að greiða niður skuldir og útgreiðslan yrði bundin því — sætu eftir með verðminni pappíra í sjóðunum.

Að því leytinu er kannski skiljanlegt að þetta frumvarp sem síðan er lagt fram hérna gangi í rauninni skammt. Það er þekkt að þegar þeir sem hafa greitt í sjóðina verða fyrir áföllum, örkumlast eða slíkt og fá greitt út úr þessum sjóðum fá þeir náttúrlega greidda út þá upphæð sem eignamyndunin í sjóðnum segir til um. Ef allir hins vegar ætla að taka út slíka eign verður mikið verðfall á öllum pappírum sjóðsins. Það er því ákveðin lending að gera þetta með þeim hætti sem frumvarpið tekur á þessu, þ.e. að greiða tiltölulega lága upphæð, eins og þessa 1 milljón kr. á einu ári, og greiða hana út með jöfnum afborgunum. Þetta er hins vegar allt önnur niðurstaða en hinir ýmsu þingmenn Samfylkingarinnar höfðu boðað. Ýmsir þingmenn höfðu tekið býsna stórt upp í sig með það að að sjálfsögðu ætti að greiða fólki út þær innstæður sem það ætti í þessum séreignarlífeyrissparnaði þegar svona væri komið. Það var auðvitað aldrei raunhæft.

Eins og þekkt er var Sjálfstæðisflokknum mikið í mun að halda áfram samstarfinu í síðustu ríkisstjórn og teygði sig býsna langt í þeim efnum. Þess vegna varð til frumvarp sem gengur miklum mun lengra en þetta frumvarp gerir og hefði þýtt, ef það hefði komið til framkvæmda, að mun hærri upphæðir hefðu verið greiddar út. Ég held að eins og það var útfært hefði það hugsanlega getað valdið lífeyrissjóðunum vandræðum í því ástandi sem við erum í núna en hins vegar kemur mér verulega á óvart að þetta skuli gert með þeim hætti sem hér er boðað.

Eins og frumvarpið er sett fram geta allir tekið þetta út án nokkurra skilyrða. Þar með er engan veginn ljóst hvort þetta fer í neyslu eða niðurgreiðslu á skuldum. Lífeyrisgreiðslur og eignir lífeyrissjóðanna eru varin eign, þ.e. ekki er hægt að ganga á þessar eignir ef til gjaldþrotaskipta einstaklinga kemur. Því er mjög varhugavert að fólk taki þetta út nema því aðeins að það geti orðið til þess að bjarga einhverju hjá viðkomandi.

Ég geri mér alveg grein fyrir því, hæstv. forseti, að þetta getur þýtt að mánaðarleg greiðsla getur haft talsvert að segja upp í afborganir af lánum fjölskyldna. En það er líka hætt við því að margar fjölskyldur sem eru komnar í mjög mikil vandræði taki þetta út, síðan gjaldfalli lánin, gengið verði að viðkomandi fjölskyldum og þær geti lent í miklum fjárhagslegum erfiðleikum og jafnvel orðið gjaldþrota og þá er þessi eign farin, eign sem annars mundi nýtast til framtíðar sem lífeyrir þegar fólk væri búið að ná þeim aldri. Þá er þetta bara horfið og farið inn í hítina. Þetta er í rauninni vandmeðfarið að mínu mati.

Reyndar komu í þessari nefnd líka upp hugmyndir um að lífeyrissjóðirnir mundu hreinlega kaupa hluta af eignum fólks. Eins og þetta er sett fram hérna þarf að sjálfsögðu að borga skatt af þessum greiðslum og það er ekki nema eðlilegt. Ef lífeyrissjóðirnir hefðu haft heimild til að kaupa t.d. hluta í húseignum fólks sem síðan hefði verið hægt að láta ganga inn í lífeyrissjóðinn aftur ef fólk keypti eignarhlutinn til baka hefði verið hægt að lækka þessar skuldir mun meira en ella er vegna þess að þá var hugsunin sú að ekki yrði borgaður skattur af þeim hluta. Það er talsvert flókin útfærsla en engu að síður að mörgu leyti raunhæf og hefði nýst miklu betur að því leytinu til að lækkun skuldastabbans verður við útgreiðslu á einni milljón rúmlega 600.000 kr. þegar búið er að draga skattinn frá. Þetta er ekkert mjög há upphæð í heildina séð.

Ég var að tala um að fólk gæti setið uppi með það að hafa eytt lífeyri sínum og lent síðan í gjaldþroti en í rauninni er jákvætt að horft skuli vera til þess að skuldheimtumönnum sé ekki heimilt að krefjast þess að skuldarar taki út séreignarsparnað sinn. Það er mjög erfitt að passa þetta og við sjáum alveg fyrir okkur að þeir sem eiga útistandandi skuldir munu benda fólki á að þetta sé ein leið til þess að kaupa sér frest. Þessi frestur verður keyptur, þetta mallar í einhverja mánuði og síðan verður kné látið fylgja kviði því að það er alveg ljóst að þegar stór hluti lánsins stendur eftir, þó að búið sé að greiða þetta, verður sá skuldapakki ekki gefinn eftir. Þar með finnst mér alveg augljóst að þó að þetta ákvæði sé þarna inni virkar það ekki neitt, hefur í rauninni ekkert að segja.

Hins vegar er gott að í frumvarpinu er tekið fram að útgreiðsla séreignarsparnaðar hefur ekki áhrif á bætur samkvæmt lögunum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Þá hefur útgreiðslan ekki áhrif á greiðslu húsaleigubóta og ég held að þetta sé mjög mikilvægt. Mér finnst þó alveg á mörkunum að það þurfi að taka þetta fram í sjálfu sér því að þetta er eiginlega alveg augljóst mál, en það er gott að allur vafi sé tekinn af um þetta.

Hins vegar ætla ég ekki að standa í vegi fyrir þessu, ég hefði viljað að það væri hægt að ganga miklu lengra í þessum efnum en ég veit hins vegar líka, eins og ég vék að í ræðu minni, að það getur verið mjög erfitt að losa fjármuni út úr þessum lífeyrissjóðum þar sem mikið framboð af bréfum sem eru í sjóðunum mundi þýða mikið verðfall af þeim sem yrði líka mjög slæmt fyrir lífeyrissjóðina þegar fram liðu stundir.