136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[20:49]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að þessar upplýsingar og þær tölur sem um er að ræða séu enn frekari rökstuðningur fyrir þeirri niðurstöðu minni, og ég er sammála hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur um, að mun skynsamlegra er að líta á þá lausn við afgreiðslu málsins sem fram kemur í tillögum hv. þm. Péturs H. Blöndals en að skapa þá óvissu sem liggur í frumvarpinu eins og það er flutt af meiri hlutanum og umræður hér í þinginu leiði það í ljós þegar menn fara að skoða þetta. Eins og hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir benti réttilega á miðað við verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar hlýtur að vera skynsamlegra að fara þá leið að millifæra þetta og í raun breyta í verðmæti fyrir skuldarana gagnvart skattheimtunni eða lánardrottnum og gera þá að sérstökum sparendum en að taka þá óvissu sem felst í því að borga þetta út, allt að 120 milljarða kannski, og raska þriðju stoðinni í lífeyrissjóðakerfi okkar, þriðju stoðinni sem veldur því að Alþjóðabankinn, OECD og aðrir sem hafa skoðað þessi mál telja að lífeyriskerfi okkar sé til fyrirmyndar. Við erum að vega að einni grunnstoð lífeyriskerfisins og ef við getum farið aðra leið og náð sama markmiði með öruggari hætti eigum við auðvitað að velja þá leið.