136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[21:15]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni þegar hann ræðir um lífeyrissjóðakerfið sem eitthvert þvingað kerfi. Lífeyrissjóðakerfið hér er orðið til fyrir samkomulag á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins. Það hefur í sjálfu sér enginn þvingað þessu upp á neinn, heldur hafa menn séð að það er skynsamleg ráðstöfun að gera samninga um lífeyri sinn og það er ekki eins og það sé eitthvert neyðarbrauð að menn hafi öflugt og gott lífeyriskerfi. Þvert á móti hefur það oft stuðlað að skynsamlegri lausn á kjaradeilum þegar menn hafa litið til lífeyriskerfisins og samið um það sem lið í uppgjöri milli aðila vinnumarkaðarins og óskað eftir aðild ríkisvaldsins, þetta eru svokallaðir þríhliða samningar þar sem menn hafa komist að þessari niðurstöðu.

Síðan er náttúrlega spurningin um hvort menn eru þvingaðir til að vera í þessum sjóði frekar en einhverjum öðrum og hvernig skipulag kerfisins er og hvernig uppbyggingin er og hvort menn eru allir skyldugir til að leggja sömu prósentur og annað slíkt. Í þinginu hafa verið miklar umræður um eftirlaunamál og lífeyrismál okkar þingmanna eru eins og kunnugt er þannig að það er síðan kannski ágreiningsefni. Ég hélt að það þyrfti ekki að vera ágreiningsefni meðal okkar þingmanna að þetta kerfi er orðið til milli aðila með samkomulagi og ríkið hefur komið að því. Það er engin þvingun eða eins og ríkisvaldið hafi beitt einhverju valdi til að koma þessu kerfi á.