136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[21:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og það sem kemur fram hjá hv. þingmanni er alveg rétt. Það hefur ekki verið gefinn gaumur að því, og það er kannski eitt af því sem við þingmenn ættum að taka til okkar, að við hefðum betur talað meira um áhættudreifinguna. Í rauninni snýr það líka að okkur þingmönnum í öllum flokkum að við hefðum betur hugsað meira til þess að dreifa ætti sjóðastýringunni og áhættudreifingunni meira þannig að það væri í auknum mæli í erlendum fjárfestingum. Ef það hefði verið gert væri staða þjóðarbúsins miklu betri en nú er og í raun umtalsvert miklu betri og við værum í allt annarri stöðu til að takast á við þau verkefni sem núna blasa við ef við hefðum borið gæfu til þess.

Ég er sammála, svo því sé til haga haldið, því minnihlutaáliti sem kom hér fram, ég segi það nákvæmlega eins og það er því að það er hárrétt hjá hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur að þetta er ekki hagstæð útfærsla fyrir lífeyrissjóðina. Það versta er að þetta kemur ekki fólkinu vel sem þarf á slíkri fyrirgreiðslu að halda. Þetta er ekki eitthvað sem munar um, í það minnsta í mjög fáum tilfellum.

Ef við brjótum það prinsipp sem menn tala hér um og menn eru sammála um í þinginu að gera hefðu menn átt að koma með betri útfærslu sem miðaði að því að færa á milli þessara eigna innan séreignarsjóðanna og skulda heimilanna. Það hefði verið raunveruleg bót fyrir verulega skuldsett heimili. Það er hægt, eins og komið hefur fram, að finna úrræði hvað það varðar og maður mundi nú ætla eftir allan þennan tíma að meira kjöt væri á beinunum í þessu ágæta máli.