136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[21:51]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi umræða hefur verið að þróast í dálítið skemmtilegar áttir í kvöld þar sem við höfum frekar verið að ræða einkenni lífeyrissjóðakerfisins og mér sýnist nú að menn hafi á því ýmsar skoðanir og má svo sem taka um það umræðu (LB: Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.) oftlega og vel.

Mig langar svolítið að vita — út af þeirri umræðu sem hér hefur verið í dag og vegna þess að þetta var nú eitt af þeim málum sem þingmenn Samfylkingarinnar kveinkuðu sér sérstaklega yfir að hafi ekki verið kláruð í tíð fyrri ríkisstjórnar og vegna þess að hér talaði hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem sat sem ráðherra í þeirri ríkisstjórn — hvort það hafi verið skilningur hans að sjálfstæðismenn hafi sérstaklega verið að draga lappirnar í þessu máli. Vegna þess að í þeirri vinnu sem ég kom að, og hún var töluverð í undirnefnd ríkisstjórnarinnar, voru ýmsar tillögur í burðarliðnum og m.a. varð sú afurð frumvarp sem hv. þm. Árni M. Mathiesen flutti. Síðan mátti skilja í almennri þjóðfélagsumræðu að það hafi verið sérstakt verkefni af hálfu sjálfstæðismanna að þvælast fyrir í þessu máli og ekki hafi verið vilji til þess að hjálpa heimilunum í landinu.

Það skýtur dálítið skökku við í rauninni þegar við höfum lýst því yfir, margir sjálfstæðismenn, að við séum tilbúin til að veita góðum málum brautargengi og þeim málum sem varða heimilin og fyrirtækin í landinu að þá hafi núverandi ríkisstjórn verið í heilan mánuð að koma sér í það að semja þetta frumvarp sem verður nú að segjast að er hvorki fugl né fiskur vegna þess að það gengur miklu skemur en hugmyndin var í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Mig langar því til að forvitnast um það hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þar sem hann sat marga fundi með fyrri ráðherrum, og ráðherrum og þingmönnum Samfylkingarinnar, hvort það hafi virkilega verið svo að fyrri ríkisstjórn hafi sprungið á þessu máli eða hvort eitthvað annað og öllu ómálefnalegra hafi verið þar á ferð.