136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[21:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er athyglisverð spurning sem menn hafa kannski ekki rætt mikið. En til að upplýsa það, svo það sé fest í þingtíðindin, þá hafði ég aldrei heyrt yfir höfuð að kvartað væri undan neinum vanda varðandi, svo ég noti hið sérkennilega orðalag „verkstjórn í ríkisstjórninni“ fyrr en helgina sem ríkisstjórnin sprakk. Ég hafði bara aldrei heyrt það. Ég hélt að allir hefðu verið sammála í þeirri ríkisstjórn. Mestur tíminn fór reyndar í að ná samstöðu við þann hluta Samfylkingarinnar sem nú er forsætisráðherra og verðandi formaður.

Ég veit ekki til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið að tefja ein eða nein mál, svo því sé til haga haldið. Þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu og svo sannarlega var það ekki þetta mál þrátt fyrir að því hafi verið haldið á lofti, enda leið heill mánuður, eins og hv. þingmaður benti á, frá því að ríkisstjórnin var sprengd undir þeim formerkjum að hlutirnir gengju svo hægt hjá Sjálfstæðisflokknum þar til menn komu með mál sem gengur miklu skemur en núverandi stjórnarþingmenn og þar með talið samfylkingarþingmenn töluðu um þegar fyrri ríkisstjórn sat og það verður nú að þykja nokkuð merkilegt.

Ég velti því fyrir mér á hverjum degi og ég veit að aðrir landsmenn gera það líka hvenær ríkisstjórnin ætlar að fara í bráðaaðgerðirnar sem boðaðar voru, hvenær ríkisstjórnin ætlar að vinna hratt í málum eins og þessu því að á heilum mánuði hefur nákvæmlega eða til þess að gera eiginlega ekki neitt gerst.