136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[21:55]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú svo að í kjölfar allra stóryrðanna um að hin nýja ríkisstjórn mundi koma með tillögur um að leysa hratt og vel úr vanda heimilanna þá hafa efndirnar ekki orðið nokkrar. Við sitjum uppi með mál sem ganga alls ekki nógu langt. Þetta er ágætis fyrsta skref til athugunar en það gengur alls ekki nógu langt. Ég held því fram að í því frumvarpi sem hafði verið eftir því sem mér skilst í meðförum fyrri ríkisstjórnar eða á einhvern hátt kynnt af hálfu fyrrverandi fjármálaráðherra, hv. þm. Árna M. Mathiesens, þar sem lagt var til að menn gætu tekið séreignarsparnað sinn út til greiðslu á móti skuldum, hafi verið hönnuð úrræði sem gagnast fjölskyldum í miklum vanda.

Hér er um að ræða 1 milljón kr. sem hægt er að taka út og engin skilyrði eru um í hvað þeir fjármunir eigi að fara. Þeir verða auðvitað skattlagðir (Forseti hringir.) og úr þessu verður afskaplega lítið þegar upp er staðið.