136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[21:58]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði fyrr í dag að Sjálfstæðisflokkurinn væri bersýnilega að hefja málþóf út af þessu máli. Sjálfstæðismenn komu hér upp í upphafi þingfundar í dag til að tala um það að þeir mundu leggja öllum góðum málum lið er varða heimilin og atvinnulífið í landinu.

Það er bersýnilegt að Sjálfstæðisflokkurinn er lagstur í eilífðarmálþóf, ekki út af þessu máli sérstaklega heldur vegna næsta máls á dagskrá. Svo koma þau hvert á fætur öðru í andsvör við sjálf sig. Þá umræðu geta þau tekið í Valhöll og þurfa ekki að láta þjóðina hlusta á þetta rugl í sér.

Þau segja líka: Hvenær ætlar ríkisstjórnin að taka á málum? Það hefur tekið heilan mánuð að koma fram með góð mál. — Þeir sletta skyrinu sem eiga það, ríkisstjórnin sem sat frá bankahruninu og fram í janúarlok og aðhafðist ekki nokkurn skapaðan hlut. Þessi umræða er til vansa fyrir Sjálfstæðisflokkinn. (ÓN: Voðalegur hávaði er þetta.)

Það er alveg ótrúlegt verð ég að segja þegar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kemur hér upp, finnur þessu máli nú allt til foráttu og segir að það sé illa úr garði gert. Má ég þá ítreka það sem ég sagði í dag að þingmenn Sjálfstæðisflokksins samþykktu málið við 2. umr., breytingartillögurnar sem komu frá efnahags- og skattanefnd og frumvarpið svo breytt og þá voru í hópi þeirra sem eru hér í salnum núna hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hv. þm. Björn Bjarnason, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hv. þm. Ólöf Nordal. Þau voru við atkvæðagreiðsluna og greiddu atkvæði með þessu máli. Af hverju gerðu þau það (BBj: Það er komin breytingartillaga við málið.) ef málið er svona ómögulegt í alla staði? (Gripið fram í: ... í nefndinni.)