136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara til að svara hv. þingmanni og benda á hið augljósa — og ég vona að honum líði ekkert illa í hendinni eftir að hafa barið svona í borðið í þessum mikla æsingi — þá sáum við að þetta mál er þess eðlis að hér eru stór skref stigin til að hjálpa heimilum í landinu. Virðulegi forseti, við erum öll sammála sem hér erum, meira að segja stjórnarliðar, að þetta eru hænuskref.

Virðulegi forseti. Eigum við þá að greiða atkvæði gegn hænuskrefunum? Við erum að tala um það að þessi ríkisstjórn sem ætlaði að vinna hratt og hjálpa heimilum í landinu er að stíga hænuskref. Jú, við styðjum það, virðulegi forseti, en við getum ekki gert annað en bent á það sem miður fer í málinu, þó það nú væri. Síðast þegar ég vissi, virðulegi forseti, þótti hv. þingmönnum Vinstri grænna það (Forseti hringir.) afskaplega lýðræðislegt að gera það, en (Forseti hringir.) nú segja þeir við okkur: Farið í Valhöll og (Forseti hringir.) ræðið þetta þar, ekki hér.