136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Við skulum tala hreint út um hlutina hér. Hér eru sjálfstæðismenn í málþófi vegna þess að þeir vilja ekki koma á dagskrá þingsins stjórnlagaþingi sem ríkisstjórnarflokkarnir og Framsóknarflokkurinn hafa lagt mikla áherslu á. Við skulum bara tala um það eins og það er og sjálfstæðismenn skulu ekki vera með neitt leikrit hér. Við erum í 3. umr. um málið og að horfa á sjálfstæðismenn fara í andsvör hver við annan sýnir að menn ætla að tefja þetta mál eins langt inn í nóttina og frekast er kostur.

Það er með ólíkindum þegar sjálfstæðismenn toppa Vinstri hreyfinguna – grænt framboð í sinni stjórnarandstöðu. (Gripið fram í.) Aldrei sá ég Vinstri græna fara í þrjú andsvör við þingmenn sína. (Gripið fram í.) Það er með ólíkindum að fylgjast með Sjálfstæðisflokknum og fyrir hönd okkar framsóknarmanna langar mig að spyrja hæstv. forseta hvort það standi ekki alveg örugglega til að funda vel inn í nóttina og koma því brýna máli, sem breyting á stjórnarskránni er, (Forseti hringir.) á dagskrá fundarins þannig að hægt sé að vinna í því máli og koma því til nefndar. Hér er verið að tefja mjög mikilvægt mál, frú forseti.