136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil gera alvarlegar athugasemdir við orð hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur hér áðan þegar hún talar um vinnubrögð efnahags- og skattanefndar í þessu máli. Ég vek athygli á því að hugmyndir hv. þm. Péturs H. Blöndals og breytingartillaga hans voru tekin til umræðu í efnahags- og skattanefnd á meðan málið var enn til 2. umr. og því var heitið að það yrði jafnframt tekið til umfjöllunar í nefndinni á milli 2. og 3. umr.

Það var gert. Það var staðið við þau fyrirheit sem við gáfum um það mál. Við gáfum líka fyrirheit um að við værum opin fyrir því að málið yrði rætt og unnið áfram, m.a. á vettvangi fjármálaráðuneytisins, og það var líka gert. Hvenær hefði Sjálfstæðisflokkurinn staðið þannig að málum þegar hann var í ríkisstjórn að taka yfirleitt tillit til viðhorfa eða sjónarmiða af þessu tagi? Það gerðum við í þessu máli og ég vísa algjörlega á bug aðdróttunum um það að vinnan í efnahags- og skattanefnd í þessu máli hafi ekki verið eðlileg og sanngjörn.