136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:12]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil minna hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins á að þeir samþykktu allar breytingartillögur við þetta frumvarp við 2. umr. Þetta mál fékk mjög ítarlega umræðu þar og Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði með því. Nú er málið óbreytt við 3. umr. og þá er það allt í einu orðið stórgallað og háskalegt fyrir lífeyrissjóðina. Hvað voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins að hugsa þegar þeir greiddu atkvæði við 2. umr.? Hvað hefur breyst á milli 2. og 3. umr.?

Málið var tekið inn í nefnd á milli 2. og 3. umr. Hér er vísvitandi verið að tefja umræðu á Alþingi. Sjálfstæðismenn vilja ljúka þessu þingi sem fyrst, það viljum við framsóknarmenn líka. En þá skulum við haga störfum hér á Alþingi þannig að fullur sómi sé að. Það þarf að koma stjórnlagaþinginu og breytingum á stjórnarskránni til nefndar þannig að hægt sé að vinna það en Sjálfstæðisflokkurinn tefur hér fyrir störfum Alþingis á einum mestu efnahagslegu umbrotatímum sem þjóðin hefur gengið í gegnum (Forseti hringir.) og ótrúlegt er að fylgjast með framkomu þeirra. Þeir skulu ekki reyna að breiða yfir þessar langlokur sínar með því að tala um að um eðlilegar umræður sé að ræða. (Forseti hringir.) Þetta er málþóf af verstu gerð.