136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:21]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér er því haldið fram af þingmönnum að málið hafi ekki fengið vandaða umfjöllun eftir 2. umr., á milli 2. og 3. umr. í efnahags- og skattanefnd, og sagt að það sé algerlega órökstutt sem haldið hefur verið fram um málflutning Sjálfstæðisflokksins, að það hafi ekki verið nein raunveruleg skoðun á þessu máli, þeim hugmyndum sem breytingartillaga Péturs Blöndals gerir ráð fyrir. Ég vek athygli á því að það mætti meira og minna bara einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd á fundi þegar þetta mál var til umræðu, enda sést á nefndarálitinu hverjir skrifa undir það og hverjir voru fjarverandi. Og í minnisblaði sem Landssamtök lífeyrissjóða lagði fram í nefndinni og fjallar um breytingartillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals segir m.a., með leyfi forseta:

„Sú leið er einnig mjög til þess fallin að skaða þá meginhugsun sem býr að baki kerfinu, þ.e. að með einföldum hætti byggi sjóðfélagar sér upp séreignarsparnað sem er mikilvæg viðbót við ellilífeyri úr samtryggingardeild …“

Þessi málefnalegu sjónarmið komu fram af hálfu Landssamtaka lífeyrissjóða og við vorum sammála þeim sjónarmiðum og þess vegna liggur fyrir framhaldsnefndarálit með þeim hætti sem það liggur fyrir.