136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:42]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hér urðum við vitni að málþófi, það er ekkert um það að villast, hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Við verðum líka vitni að því að prófkjörsbarátta er fram undan hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er skondið að horfa upp á það að sumir þingmenn halda að þeir séu nafli alheimsins, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, maður sem heldur að nefndirnar sem hann starfar í á þinginu séu mikilvægustu nefndirnar. Ég vil benda hv. þingmanni á það að í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd er t.d. mál sem skiptir miklu meira máli fyrir þjóðfélagið og það er innkall á öllum veiðiheimildum í ríkissjóð til þjóðarinnar. Þær er hægt að leigja út af ríkinu og hafa af þeim verulegar tekjur. Það er kannski ekki hægt að ætlast til þess að hv. þingmaður, sem hefur aldrei migið í saltan sjó, eða dýft hendi í kalt vatn, átti sig á því og telur sjálfum sér trú um það að aðeins nefndirnar sem hann er í skipti máli hér í þinginu. Það er auðvitað sjálfsagt að minnast á það líka að bankarnir eru jú farnir á hausinn, það er öllum ljóst, en hverjum skyldi þar vera um að kenna umfram aðra — ef ekki sjálfstæðismönnunum sem eru hér í málþófi að reyna að koma í veg fyrir að önnur mál komi í umræðu á þinginu? Ég segi enn og aftur að sjálfstæðismenn eiga raunverulega að skammast sín fyrir þessa umræðu eins og hún er. Þeir ættu að sjá sóma sinn í því að hætta þessu og flýta fyrir því að hér verði farið að ræða mál sem skipta máli.