136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:46]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Eitthvað hefur það komið við kaunin á hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að ég skyldi voga mér að segja að hann hefði aldrei migið í saltan sjó og aldrei dýft hendi í kalt vatn. En við skulum vona að það sé rétt og að hann sé með sigg á báðum höndum. Ég ætla ekki að gera það af umtalsefni aftur. Þetta kom til út af því að hann var að tala um að í sinni nefnd, allsherjarnefnd, væru mikilvægustu málin, það væru ekki nein mál nánast annars staðar í öðrum nefndum sem skiptu nokkrum sköpuðum hlut. Ég fór þá að minna hann á að við fluttum frumvarp sem liggur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd um innköllun á öllum veiðiheimildum sem gætu gefið verulegar tekjur í ríkissjóð ef þær væru leigðar út og styrkt lífeyrissjóði landsins og launþega bæði til að fá hærra kaup og meira kaup en þeir hafa og til að hjálpa þjóðfélaginu á öllum sviðum, skattar, útsvar, hafnargjöld og hærri laun sjómanna og útgerðarmanna. En hv. þingmaður valdi það að snúa út úr eins og þeim er tamt í þessari umræðu um þetta frumvarp. Þeir eru einfaldlega ekkert að ræða frumvarpið sem er á dagskrá. Það er verið að tala um allt aðra hluti. Það er verið í málþófi — þetta er ekkert annað — og prófkjörsslag kannski ekki síður. Það má vel vera að þetta verði endursýnt á morgun, í fyrramálið eða eitthvað þess háttar og þá gæti hv. þingmaður fengið smáathygli hjá eldri konum í Reykjavík og nágrenni. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að það sé það sem verið er að sækjast eftir og ég lái honum það ekkert. En í guðanna bænum, (Forseti hringir.) ágætu sjálfstæðismenn, hættið þið þessu bulli.