136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:49]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Ég vil byrja á því, frú forseti, að þakka hv. þingmanni fyrir að benda mér á öll trixin, öll helstu trixin sem menn eiga að beita í prófkjörsbaráttu, að standa hér og ræða málin og vonast til að eldri konur fylgist með manni í endursýningu. Ég hef ekki látið mér detta þetta merka trix í hug sem hv. þingmaður nefndi en hann er reyndar þeirrar gerðar og í þannig flokki að hann þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af slíku. Honum er bara stillt upp þar sem hann vill og þarf ekki að berjast fyrir einu eða neinu annað en hjá þeim sem starfa í lýðræðislegum stjórnmálaflokkum þar sem fólkið fær að segja til um það hverjir eiga að skipa framboðslista og hverjir ekki.

Ég hélt því aldrei fram, og ég vil að hv. þingmaður viti það, að það væru engin merkileg mál í öðrum nefndum en allsherjarnefnd. Ég var bara að benda á að stjórnarliðar mæta ákaflega illa á fundi í allsherjarnefnd þar sem mikilvæg mál eru til umfjöllunar eins og greiðsluaðlögun fyrir heimilin, eins og úrræði vegna nauðungarsölu heimila og önnur slík mál, afar mikilvæg mál, mál sem ríkisstjórnin hefur lagt gríðarlega áherslu á að verði kláruð áður en þing fer heim. Ég var ekki að gera lítið úr málum sem eru til umfjöllunar í öðrum nefndum, alls ekki.

Mér þykir vænt um hv. þm. Grétar Mar Jónsson. Nú ætla ég að nota endann á þessu andsvari til að hvetja þann hv. þingmann sem er helmingurinn af þingflokki Frjálslynda flokksins til þess að skrá sig á mælendaskrá og fjalla efnislega um þetta mál. Hann er tiltölulega nýkominn til (Gripið fram í.) umræðunnar og ég bið hv. þingmann um að leggja málinu eitthvað gott til, fjalla efnislega um það og hætta að tala um (Forseti hringir.) að við sjálfstæðismenn séum í málþófi, að við séum í prófkjöri og séum ekki að fjalla efnislega um (Forseti hringir.) málið vegna þess að það erum við að gera. Við viljum að þetta ágæta mál, frú forseti, (Forseti hringir.) verði betra í meðförum þingsins.