136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[23:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var nú meiri skrýtna ræðan. Ekki það að maður hafi ekki heyrt þessa ræðu frá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni áður, en hann fór hér í ræðu, væntanlegu sína fyrstu ræðu í þessu máli og það er var ekki eitt orð um mikilvægi málsins. Vitnaði réttilega í orð okkar sjálfstæðismanna, sem höfum sagt að þetta sé skref í rétta átt, en það er ljóst að gera þarf mikilvægari breytingar á frumvarpinu en efnahags- og skattanefnd lagði til í þessu máli. En hv. þingmaður kemur svo hér og slettir skyri rækilega yfir því sem við sjálfstæðismenn erum að tala um sem er að ræða hér efnislega um brýnt mál.

Það var eftirtektarvert í dag, frú forseti, að þegar við sjálfstæðismenn komum hingað upp og gagnrýndum fyrirkomulagið á dagskránni, sem liggur enn fyrir í dag og ég vænti þess að forseti muni skýra á eftir hversu langt við munum fara inn í nóttina, þá kom hv. þingmaður, sem er þingmaður Suðurkjördæmis, þingmaður Suðurnesja, m.a. fyrir framkvæmdir í Helguvík, ekki hingað upp í púlt og tók undir með okkur sjálfstæðismönnum og sagði að við skyldum ræða efnahagsmálin og atvinnumálin fyrst áður en við færum í umræðu um stjórnarskrána. Því það er alveg ljóst og ég dreg ekki dul á það, frú forseti, að við sjálfstæðismenn munum ekki kasta til höndunum þegar kemur að umræðu um stjórnarskrána. Við munum taka okkar tíma og ég lýsi því yfir að við munum taka okkar tíma í umræðu um stjórnarskrána.

Þess vegna lögðum við til að það væri mikilvægt að taka önnur málefni af dagskránni. Til dæmis málefni Helguvíkur sem skiptir miklu máli, m.a. fyrir umbjóðendur hv. þingmanns, og því kom mér það mjög spánskt fyrir sjónir í dag að hv. þingmaður skyldi ekki taka undir (Forseti hringir.) með okkur sjálfstæðismönnum að ræða fyrst og fremst atvinnumálin, þar á meðal (Forseti hringir.) Suðurnesjamanna.