136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[23:03]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Öllum er ljóst hver afstaða mín er gagnvart Helguvík, Bakka og Húsavík. Ég hef verið hlynntur því að virkja allar auðlindir þjóðarinnar og reyna að nýta þær sem best. Það er útúrsnúningur hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að halda þessu fram.

Frumvarp um séreignarsparnað er auðvitað ágætisfrumvarp en þegar er verið að tala hér um álver eða aðrar gjörðir þá sleppir hv. þingmaður því að tala um kannski stærsta málið á Íslandi í dag og það eru sjávarútvegsmál, innköllun á veiðiheimildum og þá möguleika að afla ríkissjóði tekna upp á 80 milljarða umfram það sem við höfum í dag og skapa mikla vinnu og gjaldeyristekjur. Hv. þingmaður sleppir því að ræða það. En það er auðvitað með þeim hætti sem við getum unnið okkur út úr þessari kreppu.

Það er ljóst að sjálfstæðismenn höfðu tækifæri í meira en eitt ár til að leiðrétta mannréttindabrot sem viðgangast í íslenskum sjávarútvegi. Þar þarf ekkert að gera, þar vilja sjálfstæðismenn ekki laga eitt eða neitt, (Gripið fram í: Er þetta málþóf?) þeir vilja halda áfram að brjóta mannréttindi. Þeir vilja ekki nýta það að leigja fiskveiðiheimildir til þess að afla þjóðinni tekna. Þeir vilja heldur ekki leiðrétta fiskveiðistjórnarkerfið. (PHB: Málþóf.)

Málþóf, kallar hv. þingmaður fram í. Þetta er ekkert málþóf, það er verið að ræða málþóf ykkar og af hverju hv. þm. Pétur Blöndal og flokkssystkin hans í Sjálfstæðisflokknum eru yfir höfuð að ræða þessi mál. En þau fara út á hálan ís þegar þau vilja ræða mál eins og séreignarsparnaðarfrumvarpið sem er hér til umræðu en sleppa því og vilja ekki ræða mál sem skipta miklu meira (Forseti hringir.) máli eins og fiskveiðar á Íslandi.