136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[23:14]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að fagna því sérstaklega og hrósa hv. þm. Grétari Mar Jónssyni fyrir að nota tækifærið núna fyrst í þessu andsvari sínu við mig til að ræða um aðalatriði en ekki aukaatriði eins og hann sjálfur hvatti okkur þingmenn til að gera í sinni ræðu. Nú loksins fjallaði hv. þingmaður um það mál sem hér er á dagskrá. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni um að auðvitað skiptir það máli fyrir fólk í landinu sem á við greiðsluerfiðleika að etja að fá greiddar 63 þús. kr. á mánuði út úr séreignarlífeyrissparnaði sínum.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að gera þurfi fleira til að aðstoða heimilin og fyrirtækin í landinu og koma hjólum atvinnulífsins í gang. Ég tel t.d. að lækka þurfi vexti og kanna hvort ástæða sé til jafnvel tímabundið að breyta vaxtalögum til að koma til móts við þá sem eru komnir í greiðsluerfiðleika og sökkva dýpra og dýpra í skuldafen vegna þeirra ákvæða sem nú eru í vaxtalögum um dráttarvexti og vaxtavexti. Þeir sem lenda í greiðsluerfiðleikum eiga afar erfitt með að koma sér upp úr þeim pytti vegna þessara ákvæða.

Þetta eru málin sem við eigum að ræða og ég hygg að hv. þingmaður sé sammála mér um það, eða hvað? Mig langar til að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess hvort hann sé sammála mér að breytingar á kosningalögunum og breytingar á stjórnarskránni, sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson vill fara að ræða hér og getur ekki beðið eftir að verði tekið til umræðu, (Forseti hringir.) hvort hann telji að þessi frumvörp (Forseti hringir.) hafi eitthvað með greiðslubyrði heimilanna eða endurreisn (Forseti hringir.) atvinnulífsins og bankakerfisins að gera. Ég verð að fá að heyra viðhorf hv. þingmanns til þessara atriða, forseti góður.