136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[23:16]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Við erum að ræða frumvarp um séreignarsparnað (Gripið fram í.) og nú vill hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson ræða aðra hluti eins og stjórnlagafrumvarp og annað í þeim dúr. Auðvitað er hægt að gera það en eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom inn á þarf að laga fleiri þættir en séreignarsparnaðinn, það er okkur öllum ljóst. Við þurfum að byrja á því að leggja áherslu á að minnka atvinnuleysið. Við þurfum líka að lækka vexti. Við í Frjálslynda flokknum hefðum viljað að vextir yrðu strax keyrðir hratt niður fyrir 10%, jafnvel niður í 8%, til að draga úr því að bæði heimili og fyrirtæki, sem eru að kikna undan vaxtaokrinu sem gjörðir sjálfstæðismanna ollu — eftirlitsleysi og léleg efnahagsstjórn til margra ára varð til þess að við þurftum að gera samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að forða þjóðinni frá frekari hörmungum.

Við þurfum auðvitað að reyna að auka atvinnu, þetta eru stóru málin. En sjálfstæðismenn eru ekki tilbúnir til að breyta hvorki einu né neinu, eins og í sjávarútveginum sem við höfum lagt mikla áherslu á. (Gripið fram í.) Það er nefnilega þannig að bróðurparturinn af gjaldeyristekjum þjóðarinnar kemur inn um þá atvinnugrein og hægt væri að bæta verulega við og þá eiga menn að tala um sjávarútvegsmál og hvaða leiðir eru færar til að ná í meiri gjaldeyri þar. (Gripið fram í.) Það er ekki gert og hér eru menn í málþófi um ómerkilegt mál til þess að gera, (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) hænufet í rétta átt, sagði hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, og ég segi: (Forseti hringir.) Ræðum alvörumálin.