136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[23:53]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Það er einkennilegt að heyra í þessari umræðu þegar hv. þingmenn koma hér upp og ásaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins um málþóf. Samkvæmt tölfræði þeirri sem kynnt var hér í kvöld hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins að meðaltali talað í tvær klukkustundir á þinginu frá því að það var sett í haust. En hv. þingmenn Vinstri grænna hafa talað að meðaltali í sjö klukkustundir. Það þýðir að níu manna þingflokkur Vinstri grænna hefur talað lengur samanlagt en 26 manna þingflokkur sjálfstæðismanna á þinginu í vetur. Það er afar öfugsnúin röksemdafærsla að halda því fram að þingmenn Sjálfstæðisflokksins stundi málþóf.

Það mál sem hér er til umræðu eru sennilega einhver mestu vonbrigði sem ég hef orðið fyrir á þessu þingi, það mál sem valdið hefur kjósendum sem fylgjast með umræðunum og hafa hagsmuna að gæta, hvað mestum vonbrigðum.

Jafnvel þótt liðið sé fast að miðnætti eru kjósendur að fylgjast með þessari umræðu. Ég fékk sms-skeyti frá einum þeirra áðan, ef ég má lesa það hér, með leyfi forseta:

„Það verður að koma fram að skyldusparnaður upp á 1 millj. kr. mínus skattur er ekki nægjanleg lausn á vanda fólks. Það ætti að fá að taka út allan sinn sparnað eða í það minnsta kosti 2 millj. kr. og ekki á sex til níu mánuðum heldur í einu lagi.“

Þetta er afstaða fólksins í þjóðfélaginu sem er að hlusta á okkur, til þessa frumvarps sem komið er til 3. umr. Það er afskaplega einkennilegt að þetta skuli vera niðurstaðan eftir þá miklu áherslu sem þingmenn Samfylkingarinnar lögðu á þessi mál fyrr í vetur. Hér hefur varla sést þingmaður Samfylkingarinnar frá því að umræðan hófst. Formaður nefndarinnar var hér rétt í upphafi og síðan hefur hann ekki sést. Það verður þó að segja að varaformaður nefndarinnar, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, hefur setið yfir umræðunni og tekið þátt í henni og á eflaust eftir að gera það lengur.

En það sem veldur líka vonbrigðum — þess vegna nefndi ég nefndina til sögunnar — eru vinnubrögð nefndarinnar. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni við þessa umræðu hvaða atriði það eru sem þar voru rædd, unnin og skoðuð. En þar voru ekki skoðuð vandkvæðin sem óneitanlega eru á þessu máli og þessari aðgerð. Þeim hefur verið lýst og þau hafa verið skilgreind. Það er lausafjárvandinn sem sjóðirnir gætu lent í og síðan það ójafnræði sem upp gæti komið milli sjóðfélaga, annars vegar þeirra sem fá innlausn og hinna sem ekki fá innlausn.

Minni hluti nefndarinnar hefur lagt vinnu í að reyna að leysa úr þessu. Finna leið til þess að koma bæði í veg fyrir lausafjárvandann sem upp kynni að koma og eins til að koma í veg fyrir það ójafnræði sem upp gæti komið milli þeirra sem fá innlausn og hinna sem ekki fá hana.

Lausnin kemur fram í framhaldsnefndaráliti minni hlutans á þingskjali 678 og felur í sér að tekið sé lán út á séreignarsparnaðinn og það lán síðan notað til þess að greiða skuldir þeirra sem séreignarsparnaðinn eiga. Þessi aðferð á að leysa bæði þessi vandamál.

Vissulega má segja að meiri hluti nefndarinnar nefni þetta í framhaldsnefndaráliti sínu og telur að það komi til greina að fara leið af þessu tagi þegar búið er að reyna hina leiðina sem valdið hefur svo miklum vonbrigðum. Ég vitnaði í því efni í kjósanda úti í þjóðfélaginu sem var að fylgjast með umræðunni. Í framhaldsnefndaráliti meiri hlutans er lagt til að fjármálaráðuneytið skoði tillögu minni hlutans. (Forseti hringir.) Eitt af stóru umræðuefnunum, herra forseti, núna að undanförnu (Forseti hringir.) er að virðing þingsins sé ekki nægilega mikil og að þingnefndir og þingmenn geri ekki nægilega mikið sjálfir í því að flytja mál og breyta málum. (Forseti hringir.) Þá leyfir meiri hluti nefndarinnar sér að leggja til að fjármálaráðuneytið skoði tillögu minni hlutans. (Forseti hringir.)