136. löggjafarþing — 97. fundur,  10. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[00:24]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé mig tilknúna til þess að bregðast við ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem byrjaði með mjög ómálefnalegum hætti þegar hann kom í ræðustól.

Hv. þingmaður hefur kveinkað sér undan því að þetta mál hafi verið rætt hérna í dag. Hann hefur komið í ræðustól undir fundarstjórn forseta og kveinkað sér undan því. Hann hefur ekki sýnt málinu þá virðingu að koma í andsvör, t.d. við þingmenn út af málefnalegum athugasemdum sem þingmenn hafa gert hér í dag. Síðan leyfir hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sér að koma hér upp og tala um að við höfum látið okkur hverfa af mælendaskrá í kvöld, um miðnætti. Við erum algjörlega tilbúin að ræða þetta mál áfram ef hv. þingmaður óskar eftir því. En hann verður þá væntanlega hér til andsvara, til þess að svara fyrir þetta mál. Það er alveg með ólíkindum hvernig hann leyfir sér að tala.

Ég hlýt að spyrja hann þegar hann segir að við höfum tekið einhverja beygju í málinu. Við vorum að flýta fyrir málinu við 2. umr. til þess að hv. þingmaður og nefndin sem hann sem varaformaður nefndarinnar hefur væntanlega verið að stýra, gætu athugað þær athugasemdir sem komu fram við 2. umr. og beitt nefndinni þannig að þau mál væru skoðuð almennilega. Hann ákvað að biðja fjármálaráðuneytið að skoða þau mál.

Þetta eru þau vinnubrögð sem hann ákveður að hafa í nefndinni. Hann kemur síðan hér upp eftir að hafa ekki sinnt því í dag að svara þeim athugasemdum sem fram hafa komið (Forseti hringir.) og kvartar yfir því að við (Forseti hringir.) förum af mælendaskránni. Við getum svo sannarlega rætt þetta mál áfram (Forseti hringir.) ef hv. þingmaður ætlar að sýna málinu þá virðingu að vera viðstaddur (Forseti hringir.) umræðuna og svara þeim athugasemdum sem fram koma.