136. löggjafarþing — 97. fundur,  10. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[00:26]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef verið viðstaddur þessa umræðu í dag og ég hef farið í andsvör við nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokksins um þetta mál. Ég hef setið alla fundi efnahags- og skattanefndar þar sem þetta mál hefur verið til umfjöllunar og meira og minna stýrt þeim.

Það er því ekki sanngjarnt af hv. þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins að gera því skóna að ég sýni þessu máli einhverja lítilsvirðingu eins og hér var gert, m.a. með því að halda því fram að ég hafi ekki sinnt umræðum hér í dag. Ég hef verið hér og fylgst með umræðunni í allan dag. Ég var viðstaddur alla 2. umr. og 1. umr. og ég var á hverjum einasta fundi sem efnahags- og skattanefnd fjallaði um þetta mál. Ég get því ekki tekið þennan reiðilestur hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur alvarlega eða til mín. Þannig er því nú háttað.