136. löggjafarþing — 97. fundur,  10. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[00:27]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur sést til hv. þingmanns hér í dag, því er ekki að neita. Og að því leyti sýnir hann málinu meiri virðingu, með því að vera hér í húsinu, en aðrir þingmenn stjórnarflokkanna, að ég tali nú ekki um Samfylkinguna sem hefur ekki sýnt málinu þá virðingu að vera viðstödd umræðuna.

En þegar hv. þingmaður ræðir um sanngirni þá er það ekki sanngjarnt hvernig hann byrjaði ræðu sína áðan. Eftir að ég var búin að stytta mína ræðu til þess að hann kæmist að með sínar athugasemdir leyfir hv. þingmaður sér að ræða þetta á þeim nótum að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi ekki sinnt málinu í þessu ferli.

Það er svo fjarri því vegna þess að við vorum að greiða fyrir því að málið fengi framgang sinn hér í þinginu. Það er mjög ómaklegt og ósanngjarnt hvernig hann hefur sett þetta upp í ræðu sinni og leyfir sér að gera það. En það er líklega rétt að við ræðum þetta mál áfram og að hv. þingmaður verði þá hér til andsvara og svari þeim athugasemdum sem eiga eftir að koma fram í ræðum þingmanna þannig að við getum klárað að ræða málið til hlítar.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hlýtur að vera mér sammála um að það séu mörg atriði sem þarf að skoða betur, a.m.k. var það ákvörðun meiri hluta efnahags- og skattanefndar að það þyrfti að setja hluta af málinu til sérstakrar athugunar í fjármálaráðuneytinu, samanber þær athugasemdir sem hafa komið fram.

Það var sú vinna sem fram fór í efnahags- og skattanefnd, að tillögurnar sem nefndin segir að séu vissulega athugunar virði (Forseti hringir.) en efnahags- og skattanefnd ætlar samt sem áður ekki að athuga þær, þetta er sent til fjármálaráðuneytisins (Forseti hringir.) til athugunar.