136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi forseti, sem stýrir fundi svo röggsamlega. Hv. þm. Jón Magnússon sagði að sig hryllti við að þessir hlutir skyldu hafa gerst að eigendur bankanna hefðu getað skammtað sér fé á báða bóga.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. Pétur Blöndal vilji þá fara og kanna málin innan Sjálfstæðisflokksins. Því að hvernig kom þetta til? Jú, með einkavæðingu og sölu bankanna. Og hvernig voru þeir einkavæddir og seldir? Jú, í helmingaskiptum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og þannig var síðan opnuð sú leið græðgisvæðingar sem þessir flokkar leiddu yfir þjóðina með einkavæðingunni. (Gripið fram í: Hárrétt.) Menn verða bara að horfast í augu við þann sannleika og hlaupa ekkert frá honum. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. Pétur Blöndal mun nú þá fara og kanna hvaða aðilar innan Sjálfstæðisflokksins, þegar þetta var einkavætt á sínum tíma, hafa nýtt sér aðstöðuna á svona (Gripið fram í.) hryllilegan hátt eins og hv. þingmaður lýsti.

Hitt er svo alveg rétt og ég tek undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, við horfum líka til framtíðar og við endurreisum ekki bankana aftur á þeim sama grunni og Sjálfstæðisflokkurinn leiddi þá á sínum tíma í einkavæðingu og sölu þeirra. Við þurfum að leiða nýjar hugsjónir inn í bankakerfið, inn í fjármálakerfið (Gripið fram í: Þið viljið … í fyrsta skipti.) og … (VS: Þið viljið selja.) Við viljum ekki selja banka. (Gripið fram í: Jú.) Við viljum eiga góðan og sterkan þjóðbanka og ég trúi því ekki að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sem var viðskiptaráðherra í einkavæðingarferli bankanna, vilji endurtaka það ferli. (Gripið fram í.) Nei, ég tel (Forseti hringir.) að við þurfum að gera upp við þessa fortíð líka (Forseti hringir.) og síðan að endurreisa bankana á nýjum og heilbrigðum grunni. Og mér finnst þessi beiðni hv. þm. Péturs Blöndals um fund í efnahags- og skattanefnd mjög góð, herra forseti.