136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

lánveitingar bankanna til eigenda, málþóf o.fl.

[13:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hrun eins banka er mjög alvarlegt mál og leiðir hugann að því hvernig aðrar fjármálastofnanir standa, svo sem sparisjóðir og fleiri. Mér finnst að Alþingi komi þetta við. Ég mundi vilja sjá skýrslu frá forsætisráðherra strax þegar svona lagað gerist.

Þegar upplýsingar koma síðan um að bankarnir hafi lánað eigendum sínum mikið meira en eigið fé bankanna var, finnst mér það líka að vera nokkuð sem Alþingi ætti að fjalla um. Mér finnst að rannsóknarnefndin sem við erum búin að setja í gang þurfi að fá sérstaklega mikinn stuðning héðan.

En ég vil minna á að á þeim tíma þegar bankarnir lánuðu þetta fé var hér fjármálaeftirlit sem ég treysti á og trúði að mundi koma í veg fyrir svona lagað. (Gripið fram í: En hvað?) En hvað? Það virðist ekki hafa unnið rétt og það er spurning hvort hv. þingmaður, þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, hafi staðið sig. Alþingi setur lög og reglur og eftirlitsstofnanir og treystir því að þær vinni og komi skikk á hlutina, t.d. að ekki viðgangist gífurlegar lánveitingar milli bankans og aðalhluthafanna og jafnframt að varað sé við og helst komið í veg fyrir að bankastofnanir hrynji. Þær eiga ekki að hrynja. Það er eitthvað að þegar bankastofnanir hrynja eins og gerðist hérna í haust þegar þrjár stórar bankastofnanir hrundu. Það er eitthvað að þegar svoleiðis gerist.

Maður hlýtur að spyrja: Hvað gerðist? Ég vona að rannsóknarnefndin muni komast að því öllu. Hún má rannsaka langt aftur í tímann og ég vona að hún muni finna út úr því hvað gerðist. Hvað var það sem olli því að hér varð hrun í október 2008? (Forseti hringir.)