136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

lánveitingar bankanna til eigenda, málþóf o.fl.

[13:48]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er ánægjulegt að heyra sjálfstæðismennina Pétur H. Blöndal og félaga hans ræða um alvarlega hluti eins og þeir vilji í raun og veru að hafin sé umræða um þá vegna þess að framferði þeirra í gær benti ekki til þess að þeir tækju þingið alvarlega eða þá þjóð sem þá kaus.

Nú vill svo til að þótt þingreynsla mín sé ekki löng hef ég nokkurt vit á málefnunum í kringum málþóf. Málþóf er þannig, forseti, að fyrsta stig málþófs er eins og vægur sviði. Það fer þannig fram að menn ræða ítarlega en þó málefnalega (Gripið fram í.) um hlutina, (Gripið fram í.) teygja nokkuð — greinilega vanari en sumir eru hér — og þannig vex þetta stig af stigi. Þriðja stig málþófs, sem er frekar óþokkalegt stig, fer þannig fram að heilir þingflokkar fleygja sér í ræðustólinn hver á eftir öðrum og rugla og þvaðra um málin eftir því viti sem þeir hafa.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú náð því skemmtilega aukastigi í þessu og komið fram með nýjung. Af því að hér var sagt í gær að þeir væru orðnir verri en Vinstri grænir verður að bera í bætifláka fyrir Vinstri græna en fylgdarsveinar Sjálfstæðisflokksins náðu þeirri nýjung sem Vinstri grænir náðu aldrei, að fara í andsvör við sjálfa sig. Sjálfstæðismenn fóru átta sinnum í ræðustól í andsvör við sjálfa sig í gær. Þeir fluttu ræður samtals í 330 mínútur, í fimm og hálfan tíma.

Það má að vísu segja að hv. þm. Jón Magnússon einn manna hafi rætt einhverjar skoðanir sem hann hafði í raun og veru en annars töluðu hér fimmtán sjálfstæðisþingmenn í gær. Þrír þeirra töluðu oftar en einu sinni. Þeir voru í átta andsvörum við sjálfa sig. Átta sinnum fór sjálfstæðismaður í andsvar við sjálfstæðismann. Um hvað í ósköpunum? Jú, til þess að láta hinn endurtaka þessa gullnu setningu, þetta glæsilega (Forseti hringir.) mál sem hann flutti. Og sautján sinnum fór sjálfstæðismaður að ræða um fundarstjórn forseta. (Forseti hringir.) Samtals 330 mínútur sem hefði verið hægt að nota í stjórnarskrána, (Forseti hringir.) í atvinnuleysistryggingar, (Forseti hringir.) í álver í Helguvík (Forseti hringir.) og í bankahrunið en það gerðu sjálfstæðismenn ekki heldur voru þeir að skemmta sér við fjórða stigs málþóf í (Forseti hringir.) allan gærdag.