136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

lánveitingar bankanna til eigenda, málþóf o.fl.

[13:51]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn hv. Mörður Árnason talar um málþóf og ég heyri á mæli hans að við eigum margt ólært í þeim efnum. Flokkur hans hefur mun meiri reynslu í málþófi en nokkurn tímann þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

En það sem fór fram í sölum Alþingis í gær var ekki málþóf. [Hlátur í þingsal.] Og ég mótmæli orðum hv. þingmanns í þá veru. Þar fór fram efnisleg umræða frá hendi þingmanna Sjálfstæðisflokksins um heimildir fólks til þess að nálgast séreignarsparnað sinn úr lífeyrissjóðum til að mæta greiðsluerfiðleikum heimilanna. Þar kom fram hörð gagnrýni sjálfstæðismanna á þá leið sem ríkisstjórnin hefur kosið að fara.

Við bentum á að útfærsla ríkisstjórnarinnar nær ekki þeim tilgangi sem lagt var upp með, að rétta almenningi björgunarhring til að mæta erfiðleikum heimilanna en um leið að gæta hagsmuna lífeyrissjóðanna. Við bentum á að í umsögn Fjármálaeftirlitsins komu fram alvarlegar viðvaranir um útfærslu ríkisstjórnarinnar.

Leið stjórnarliða felur í sér að almenningur getur innleyst 1 millj. kr. í jöfnum greiðslum á tíu mánuðum, 100 þús. á mánuði í tíu mánuði eða 63 þús. kr. á mánuði eftir skatta. Slík útfærsla dugar skammt til að mæta vanda heimila í landinu sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Þessi útfærsla veldur vonbrigðum. Það var það sem við ræddum í gær.

Leiðin sem sjálfstæðismenn mæltu fyrir í gær og lögðu fram breytingartillögu um felur í sér að almenningur getur gengið að því að leysa út séreignarlífeyrissparnaðar í einu lagi, 1 millj. kr. að frádregnum skatti í einni upphæð. Það var mat fulltrúa lífeyrissjóðanna að leið sjálfstæðismannanna væri betri en leið ríkisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Hafi þingmenn eitthvað lært af hamförum haustsins er það að við þurfum að vanda til verka. Við megum ekki sýna andvaraleysi heldur skoða mál til hlítar og finna bestu leiðina. Sjálfstæðisflokkurinn telur að á það hafi skort í vinnslu frumvarpsins við innlausn séreignarlífeyrissparnaðar.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru ekki í málþófi í gær. Þeir reyndu hvað þeir gátu til að fá stjórnarliða og fylgismenn þeirra til að snúa við blaðinu. (Forseti hringir.) Og við áteljum þau fljótvirknislegu vinnubrögð (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar í málinu sem er í eðli sínu gott.