136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

lánveitingar bankanna til eigenda, málþóf o.fl.

[13:56]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Við hv. þingmenn höfum þann rétt í Alþingi að koma í upphafi þingfundar og ræða um störf þingsins. (Gripið fram í: ... í málþófi.) Hæstv. utanríkisráðherra er meistari í frammíköllum og reynir eilíflega að afvegaleiða umræðu og beina henni inn á þær brautir þar sem hann vill að þær séu. (Gripið fram í.)

Ég er að sjálfsögðu á móti málþófi en sem betur fer, m.a. í samstarfi við hæstv. utanríkisráðherra, tókst okkur að gjörbreyta umræðum á Alþingi frá því að (Gripið fram í.) hér stæðu yfir einræður klukkutímum saman yfir í það að nú eru umræður, (Gripið fram í.) nú eru stuttar ræður og hv. þingmönnum sumum hverjum, m.a. hv. þm. Merði Árnasyni sem kallar hér stöðugt fram í og reynir að trufla ræðu mína — að við fáum tækifæri til þess að eiga hér samræður, stuttar ræður, málefnalegar ræður.

Ég fagna því — ef hv. þm. Mörður Árnason þagnar nú aðeins — og vek athygli á að í gærkvöldi fóru fram málefnalegar umræður um mikilvægt mál (Gripið fram í.) og ég vísa því algerlega á bug að hér hafi farið fram málþóf. Við höfum rétt til þess að gera athugasemdir og við höfum rétt til þess að hafa í frammi málefnalega gagnrýni og það var það sem fór hér fram í gærkvöldi.

Í útvarpinu í hádeginu var sagt frá því að hér hefðu verið miklar umræður. Þar var einn sjálfstæðismaður kynntur til sögunnar og fjölmargir hv. þingmenn úr öðrum flokkum, sem bendir kannski til þess að það voru þingmenn úr fleiri flokkum en Sjálfstæðisflokknum sem töluðu hér. Það er fullkomlega eðlilegt að við notum okkur rétt okkar til (Forseti hringir.) málefnalegrar umræðu og hún fer fram á Alþingi og á að fara fram hér.